Skákþing 2022, skákkennsla og góður árangur á Íslandsmóti skákfélaga

0
Skákþing 2022, skákkennsla og góður árangur á Íslandsmóti skákfélaga
Sæmundur Einarsson, tekur við verðlaunabikar skáksveitar TV en félagið varð í 2. sæti í 1. deild á Íslandsmóti skákfélaga 6. mars sl.

Taflfélag Vestmannaeyja var með þrjár 6 manna sveitir á mjög fjölmennu  Íslandsmóti skákfélaga 2021-2022,  en seinnihluti mótsins fór fram í Fjölnishöllinni í Grafarvogi 5.-6. mars sl.

Sveitirnar þrjár skipaðar félagsmönnum TV sem  ýmist eru búsettir í Eyjum eða á meginlandinu.  Alls voru tefldar sjö umferðir á mótinu, en fjórar fyrstu fóru fram í október 2021. Alls tóku um 30 félagar í TV í mótinu í heild.

TV var með sveit í 1. deild  sem voru átta lið. TV var  í forystu allt fram í síðustu umferð og endaði að lokum með 11 stig og 26 vinninga. Sigursveit KR var aftur á móti með 11 stig og 26,5 vinning og færist hún upp í úrvalsdeild. Munurinn gat ekki orðið minni!. Ekki var reiknað  með því að skáksveit TV myndi ná þetta langt og árangurinn því mjög góður.  Þá var TV með sveit í 3ju deild á Íslandsmótinu  þar sem liðið varð í 5.-6. sæti af átta sveitum. Þessu til viðbótar var TV með sveit í 4. deild þar sem voru 15 sveitir.  Sveit TV   lenti  í 9. sæti af  15. sem er mjög þokkalegur árangur.   Liðsstjórar TV voru Þorsteinn Þorsteinsson í 1. deild, Hallgrímur Steinsson form.  TV í .3. deild og Ólafur Hermannsson í 4. deild.

Skákkennsla ungmenna á vegum TV fer fram á mánudögum kl. 17.30  og fimmtudögum kl. 17.30 í skákheimili Taflfélagsins að Heiðarvegi 9  þar sem öll aðstaða til skákkennslu og keppni er til fyrirmyndar. Sæmundur Einarsson og Guðgeir Jónsson félagsmenn í TV sjá um kennsluna.

Framundan er Skákþing Vestmannaeyja 2022  sem fer fram í skákheimili TV að Heiðarvegi 9. Teflt verður í einum flokki og er umhugsunartími  á skákina  90 mínútur á hvorn keppenda auk 30 sek. á leik.  Teflt verður á fimmtudögum kl. 19.30 og á sunnudögum kl. 13.00.  Miðað er við að  Skákþingið  hefjist í lok mars eða byrjun apríl. Nánari upplýsingar gefur Sæmundur Einarsson, skákstjóri í síma 611-2284 eða á netfanginu [email protected].