Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, greindi á fundi bæjarráðs í síðustu viku frá nýjustu stöðu varaaflsmála í Vestmannaeyjum, þ.á.m. fjölda færanlegra varaaflsstöðva sem Landsnet var búið að lofa að senda til Vestmannaeyja. Tvær stöðvar eru komnar til viðbótar við þá einu sem send var fyrr á árinu. Samanlögð framleiðslugeta umræddra varaaflsstöðva er um 3,6 MW af raforku. Verið er að ljúka við að tengja vélarnar.

Staða og umgjörð raforkumála (fjarvarmaveitur):
Bæjarstjóri greindi frá fundi hennar og orkumálaráðherra, um stöðu rafmorkumála í Vestmannaeyjum, þar sem ítrekað var mikilvægi þess að bæta varaafl og breyta lagaumgjörðinni um fjarvarmaveitur. Mikilvægt er að huga sérstaklega að rekstrarumhverfi fjarvarmaveitna, m.ö.o. sanngjarnt verð á raforku til framleiðslu varmaorku. Óeðlilegt er að fjarvarmaveitur á köldum svæðum skuli þurfa að kaupa raforku á markaði til að framleiða varmaorku til húshitunar.