Það er ekki sjálfgefið að gott fólk gefi kost á sér í sveitastjórnarmálin. Í flestum sveitafélögum er nálægðin við náungann og viðfangsefnin mikil og því geta minniháttar mál oft orðið persónuleg og erfið. Þá skiptir máli að hafa réttsýnt, gott og heiðarlegt fólk við stjórnvölinn. Því hef ég persónulega kynnst að Hildur Sólveig Sigurðardóttir er búin þessum mikilvægu kostum sem hafa reynst henni vel í störfum sínum fyrir Vestmannaeyjar.

Enn fremur er Hildur Sólveig öflug þegar kemur að hagsmunabaráttu fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum og hefur tekið þátt í baráttu m.a. gagnvart sýslumannsembættinu og við yfirtöku á rekstri Herjólfs, þá hefur Hildur verið mikilvægur bandamaður í framvindu sjúkraþyrluverkefnisins. Þau eru mörg fleiri málin þar sem hún lætur reglulega vita af sér, spyr frétta og ýtir við hlutunum víða í stjórnkerfinu. Þar má nefna mál sem snúa að heilsugæslu, samgöngum, fjarnámi, opinberum störfum og stofnunum og áfram mætti telja. Þetta er mikilvæg en oft vanmetin vinna sem skiptir samfélag eins og Vestmannaeyjar máli. Það er nú einu sinni þannig að þeir eru ansi margir sem vilja ná sínum baráttumálum í gegn og þingmenn og ráðherrar hafa takmarkaðan tíma og tækifæri til að vera með puttana í öllum málum. Þá skiptir máli að einhver með dug og þor sé reiðubúinn að ýta málum áfram í stjórnkerfi sem oft á tíðum er hlaðið hindrunum og krákustígum.

Hildur Sólveig hefur sýnt það í verki síðustu ár að þar fer atorkumikill leiðtogi sem brennur fyrir hagsmuni samfélagsins í Vestmannaeyjum umfram allt annað. Ég hvet því Eyjamenn til að veita henni brautargengi og setja Hildi Sólveigu í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum sem fram fer 26. mars.

Vilhjálmur Árnason
Alþingismaður