Fjögur ár eru frá því að ég hóf afskipti af bæjarpólitíkinni og fyrir fjórum árum lagði Eyjalistinn aðaláherslu á skólamál, þjónustu við nemendur í leik- og grunnskólum og bætta þjónustu við íbúa almennt. Þegar ég lít til baka á þau verk sem okkur Eyjalistafólki hefur tekist að ná fram á líðandi kjötímabili get ég sagt að full ástæða er til þess að vera stoltur af þeim verkum og stoltur af öllu því fólki sem lagði sitt af mörkum til að áherslur okkar næðu fram að ganga.

Eyjalistinn ætlar að halda áfram á þessari góðu braut!

Fjölmargar áskoranir
Bærinn stendur frammi fyrir fjölmörgum áskorunum, sérstaklega er varða hagsmunagæslu okkar gagnvart ríkinu. Það var þyngra en tárum taki þegar Vestmannaeyjabær, ásamt fleiri sveitarfélögum, sá sig knúinn til að skila rekstri hjúkrunarheimilisins Hraunbúða aftur til ríkisins. Bæjarstjórn var öll sammála um að fara þessa leið enda nema vanefndir á greiðslum frá ríkinu með rekstrinum hundruðum milljóna á síðustu árum. Það er alveg ljóst að allir þeir sem vilja fara með ábyrgum hætti með sameiginlega sjóði bæjarbúa geta ekki látið slíkt yfir sig ganga.

Rekstur hjúkrunarheimila er nærþjónusta sem sveitarfélögin eiga að sinna – rétt eins og grunn- og leikskólarnir, málaflokkur fatlaðra og félagsþjónustan. Við viljum öll þjónusta okkar íbúa sem best og við vitum best hvernig það verður gert. Við eigum því að vera reiðubúin til þess að taka aftur yfir rekstur Hraunbúða þegar ríkið er tilbúið að tryggja réttar greiðslur með rekstrinum sem því ber að gera samkvæmt lögum.

Aukin heldur er kominn tími til þess að í Vestmannaeyjum verði byggt nýtt hjúkrunarheimili sem uppfyllir kröfur nútímans gagnvart heimilisfólki, aðstandendum og starfsfólki. Það var mikið gleðiefni þegar tillaga sem meirihluti bæjarstjórnar bar upp um að hefja þá vegferð fékkst samþykkt í bæjarstjórn á síðasta fundi. Við ætlum að tryggja að það mál verði til lykta leitt og hér hefjist framkvæmdir sem allra fyrst.

Eyjalistinn á erindi
Eyjalistinn er framboð fólks úr ólíkum áttum sem vill vinna samfélaginu í Vestmannaeyjum gagn. Í grunnstefnu okkar er að finna áherslur á málefni fjölskyldunnar, áherslu á framúrskarandi þjónustu við alla íbúa, öflugt atvinnulíf og náttúruvernd svo fáeitt sé nefnt.

Við teljum okkur eiga erindi við bæjarbúa og dæmin sýna að fjölmörg framfaramál fyrir samfélagið hafa komið úr okkar ranni. Þannig var frístundastyrknum komið á eftir mikla baráttu Eyjalistans á sínum tíma. Á kjörtímabilinu tókst okkur svo að tvöfalda styrkinn og gera umsóknarferlið einfaldara og skilvirkara. Við gerðum þjónustu við nemendur í skólunum að aðal máli okkar fyrir síðustu kosningar og í dag má fullyrða að það hafi svo sannarlega borið árangur. Sem dæmi má nefna að snemmtæk íhlutun var tekin upp í bæði leik- og grunnskólanum, kraftur var settur í fjárfestingu í spjaldtölvum fyrir nemendur til þess að tryggja nútímalega kennsluhætti og loks hófst stórmerkileg menntarannsókn í grunnskólanum með það fyrir augum að bæta árangur nemenda í skólakerfinu.

Á næstunni verður farið í framkvæmdir við nýja álmu í Harmarskóla þar sem gert verður ráð fyrir skólastofum, frístund og tónlistarskólanum. Það eru tæp þrjátíu ár síðan fyrst var farið að ræða um stækkun Hamarsskóla. Það er algerlega ástæðulaust að bíða lengur – beðið hefur verið síðan á síðustu öld. Tími framkvæmda er runninn upp!

Næst á dagskrá Eyjalistans!
Nú hefur félagsfólk í Eyjalistanum samþykkt framboðslista sinn fyrir komandi kosningar. Listinn er skipaður frábæru fólki á öllum aldri og með ólíkan bakgrunn sem á það sameiginlegt að vilja halda áfram að gera góðan bæ enn betri. Fólki sem er tilbúið til þess að takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem framundan eru.

Næstu fjögur árin ætlum við að byggja ofan á þann grunn sem lagður hefur verið á kjörtímabilinu, efla þjónustu við íbúa og búa til betra samfélag fyrir alla. Sterk staða bæjarsjóðs gerir það að verkum að við lítum framtíðina björtum augum og erum reiðubúin til þess að fjárfesta í innviðum samfélagsins. Við þurfum að bregðast við íbúafjölgun og fjölgun barnafjölskyldna og horfa í því ljósi til leikskólanna okkar þannig að þeir verði í stakk búnir til að mæta þessari jákvæðri íbúaþróun.

Þá er ljóst að halda þarf áfram á þeirri vegferð að renna styrkari stoðum undir fjölbreytt atvinnulíf í bænum. Þetta gerum við alltaf í samstarfi við atvinnulífið – þá sem þekkinguna hafa og vita hvar þörfin liggur. Með samvinnu og samtakamætti bæjarins við íbúa og fyrirtæki eflum við samfélagið okkar og gerum góðan bæ enn betri.

Við erum tilbúin í það verkefni.

Njáll Ragnarsson
Formaður bæjarráðs og oddviti Eyjalistans