Handknattleiksdeild ÍBV hefur samið við hinn færeyska Janus Dam Djurhuus til tveggja ára. Þetta kemur fram í tilkynningu sem félagið sendi frá sér rétt í þessu. Janus kemur til ÍBV frá uppeldisfélagi sínu H71 í Færeyjum. H71 varð á nýloknu tímabili þar í landi bæði bikarmeistari og Færeyjarmeistari og spilaði hann þar lykilhlutverk.

Janus er tæknilega góður vinstri hornamaður, er fæddur árið 2002 og er hluti af flottum árgangi hjá H71 og færeyska U20 ára landsliðinu. Hann verður í hópnum hjá U20 ára liði Færeyja sem leikur á EM í Porto í Portúgal í sumar.

Aðspurður segist Janus mjög spenntur fyrir því að koma til liðs við ÍBV en hann var meðal áhorfenda þegar liðið sigraði Stjörnuna glæsilega í gær. Hann telur að þessi félagaskipi séu gott skref í hans ferli og geti hjálpað honum að þróast sem handboltamaður.