Jón Ólafur Daníelsson

Kæru vinir. Þar sem ég bý að 30 ára þjálfunarreynslu hjá ÍBV langar að leggja orð í belg varðandi hugmyndir um annað hvort gervigras á Hásteinsvöll eða stækkun Herjólfshallar sem hefur verið í umræðunni í Eyjum að undanförnu.
Ég tel að hafa þurfi í huga að góð hugmynd þarf ekki endilega að vera sú hentugasta. Í mínum huga þurfum við Eyjamenn fyrst og fremst skjól fyrir iðkendur okkar frekar en frábærar keppnisaðstæður utandyra sem ég reyndar tel okkur hafa í dag. Við þurfum að hugsa þetta út frá heildarhagsmunum allra aldursflokka ÍBV en ekki bara meistaraflokkanna. Í Eyjum eru fleiri íþróttagreinar en fótbolti og því þurfa börnin stundum að fara á tvær æfingar á dag. Ég tel það ekki til góða að þurfa fara af einni innanhúsæfingu beint á aðra æfingu utandyra í kulda, rigningu og trekki. Það er nú bara þannig að einhverjir iðkendur myndu ekki láta sig hafa það og því held ég að við myndum alltaf missa einhverja iðkendur úr íþróttinni vegna þessa. Hver einasti iðkandi er mikilvægur og við þurfum á öllum að halda.
Að æfa úti eða inni í austan 20 vindstigum
Núverandi aðstæður eru þannig að við erum með knattspyrnuhöll þar sem er hálfur löglegur knattspyrnuvöllur fyrir 11 manna bolta en bygging hallarinnar var mikið framfaraskref á sínum tíma. Þá var forsjálni að hafa höllina stækkanlega í framtíðinni sem er nokkuð sem við ættum að nýta okkur núna. Knattspyrnuiðkendur ÍBV æfa þannig innandyra yfir veturinn sem er frábært en það er samt viss galli á því. Við þurfum að skipta höllinni í tvennt, þ.e vegna plássleysis þurfa tveir flokkar að æfa á sama tíma sem þýðir að iðkendur eru að æfa á svæði sem er langt frá því að vera jafn stórt og keppnisaðstæður. Sem dæmi má nefna að 4. flokkur drengja og stúlkna, þ.e. iðkendur 13-14 ára, þurfa oft að æfa á ¼ af stærð keppnisvallar því það eru tveir flokkar að æfa á sama tíma. Þetta er óviðunandi fyrir alla og hamlar eðlilegri framþróun fótboltans og framförum iðkenda og gerir það að verkum að knattspyrnan í Eyjum mun dragast aftur úr. Með stækkun hallarinnar í fulla keppnisstærð myndu þessir iðkendur geta æft í réttum hlutföllum keppnisvallar þegar tveir flokkar æfa samtímis og einu sinni til tvisvar í viku á heilum keppnisvelli, allt árið um kring.
Þá vil ég einnig minnast á að í 5.flokki drengja og stúlkna, þ.e. iðkendur 11-12 ára, er leikið á hálfum keppnisvelli í 8 manna liðum. Á all flestum stöðum þar sem er keppnishöll í fullri stærð er leikið á tveimur völlum í einu. Án stækkunar á Herjólfshöll er það ekki mögulegt og því þarf að teppa höllina
í 4-5 klst. í hvert sinn sem leikið er í 5.flokki drengja eða stúlkna ef leikið er í A, B, C og D liðum. Í stað þess ef höllin væri í réttri stærð þá þyrfti einungis að teppa höllina í 2,5 klst. Að teppa höllina í 4-5 klst í vondu veðri er ekki ásættanlegt því það eru margir flokkar sem þurfa komast að svo ekki sé talað um eldri borgara sem þurfa taka sínar göngur í höllinni.
Gervigras á Hásteinsvöll leysir ekki þennan vanda því eins og veður eru yfir vetrartímann þá er oft einfaldlega ekki stætt úti eins og við urðum vitni að síðasliðinn vetur. Hvort er vænlegra til árangurs að æfa úti eða inni í austan 20 vindstigum?

Ég fullyrði að öllum liði betur að æfa og keppa heimaleikina í yfirbyggðri höll yfir vetrartímann. Ferðalögum barna og unglinga fækkar svo um munar. Tilhlökkunartilfinningin er svo góð að geta spilað heima en ekki þurfa ferðast enn eina helgina. Amma og afi, mamma og pabbi, frænka og frændi, að mæta í Herjólfshöll að horfa og hvetja ÍBV. Rétt er að benda á að verið er að breyta fyrirkomulagi á Íslandsmóti yngri flokkanna og stendur nú yfir tilraunaverkefni í 3. flokki. Íslandsmótið þar byrjaði í mars í stað maí/júní og því er ljóst að ÍBV getur ekki spilað heimaleiki í 11 manna bolta í Vestmannaeyjum í mars nema að knattspyrnuhöllin verði reist í fullri stærð. Það þýðir enn fleiri keppnisferðir upp á land. Fullbyggð höll í löglegri keppnisstærð er fyrst og fremst reist fyrir börnin okkar sem og afreksstarfið og nýtist því öllum iðkendum. Við þurfum að hafa í huga að iðkendur eru ekki bara að ferðast í knattspyrnuleiki heldur líka í aðrar íþróttaferðir fyrir utan aðrar ástæður til ferðalaga.
Það hefur afar lengi verið rætt að börnin verða bensínlaus að ferðast eins mikið og raun ber vitni yfir vetrartímann. Þessi endalausu ferðalög yfir vetrartímann hafa líka letjandi áhuga iðkenda til að mæta í skóla á mánudagsmorgnum eftir erfiða sjóferð kvöldið áður. Því er hér um stórt lýðheilsumál að ræða.
Ég sjálfur er mjög sjóveikur og veit því uppá hár hversu mikinn toll of margar keppnisferðir taka af iðkendum sem og foreldrum sem þurfa skipta á sig að vera fararstjórar í ferðum.
Ég las um daginn að þegar meistaraflokkarnir fara að æfa úti yfir vetrartímann á gervigrasi þá myndi rýmka um æfingatíma í höllinni. Þessi rök get ég ekki keypt því eins og við sáum síðasta vetur þá hefði ekki verið hægt að æfa marga daga úti og því þurft að hlaupa inn í höll. En hvað þá? Þyrfti yngri flokkurinn sem á þann æfingatíma úthlutaðan að víkja, eða hvað ætla menn að gera? Þarna yrðu alltaf erfiðir árekstrar.
Lítil saga þessu tengt. Árið 1999 var ég að þjálfa 6. flokk ÍBV. Úti var aftakaveður og ráðgert að
6. flokkur drengja ætti að æfa á malarvellinum. Búið avar ð gefa út að æfing í m.fl. karla væri aflýst og útihlaupi hjá mfl.kvenna var einnig aflýst. Þegar ég mæti á malarvöllinn voru mættir 24 drengir í 6. flokki, grjótharðir á því að það yrðu sko ekki gerðar neinar tækniæfingar þennan daginn heldur spilað allan tímann. Með öðrum orðum þá eru það ekki krakkarnir sem eru fyrst til að hlaupa í skjól.
Einnig hefur verið rætt afar oft að aðstæður til aukaæfinga séu ekki nægilega góðar fyrir iðkendur sem stunda skóla eða vinnu því höllin er svo þétt setin. Við stækkun hallarinnar myndi að sjálfsögðu aukast möguleikar á öllum tegundum séræfinga og aukaæfinga, svo ekki sé talað um markmannsæfingar.
Spyrjið Reyðfirðinga um reynslu þeirra af heilu knattspyrnuhúsi
Það er svo margt sem spilar líka inn í við stækkun hallarinnar varðandi heimaleiki. Ég leyfi mér að fullyrða að félög sem þurfa að leika í Eyjum tækju heila helgi hér sem þýðir að Herjólfur, hótel og gistiheimili, veitingastaðir, sundhöllin, sjoppueigendur o.fl. fengju vetrarviðskipti ásamt annari verslun sem þessu myndi fylgja. Ég fullyrði einnig að í leiðinni yrði leikinn æfingaleikur sem skapar ÍBV keppnisverkefni sem er einmitt það sem við þurfum á að halda yfir veturinn.
Á Reyðarfirði er knattspyrnuhöll í fullri stærð. Ég fór þangað í febrúar s.l. til að leika í Lengjubikarnum. Þar á bæ segja menn að það hafi verið góð ákvörðun að byggja höll frekar en fá gervigras því sjóþyngsli vetrarins hefðu gert gerfigrasvöllinn ófæran í margar vikur. Að mínu mati eru okkar aðstæður ekki ósvipaðar nema hér er við vindinn að glíma í stað snjósins.
Hásteinsvöllur getur verið nothæfur til keppni frá miðjum apríl til loka október ef þess þarf. Með góðum vallarstarfsmönnum og góðri ráðgjöf grasvallarsérfræðinga á að vera hægt að halda vellinum keppnishæfum á þessu tímabili.
Ég tel mig vita með vissu reynslu minnar vegna að afar fá eða sennilega ekkert félag myndi ferðast frá Þorlákshöfn yfir vetrartímann til að leika í erfiðum eða óvissu aðstæðum utandyra vegna veðurs. Aftur á móti tel ég að flest félög myndu láta sig hafa það – og eins og áður segir gera sér mikla helgi úr ferðinni ef leikið er við öruggar aðstæður.
Gervigras á Hásteinsvöll er góð hugmynd en ég tel að stækkun knattspyrnuhallar í fulla keppnisstærð sé það sem Eyjamenn þurfa og gagnast knattspyrnunni hér best til framtíðar. Skjól fyrir vindi er það sem ég tel mikilvægast jafnt fyrir börnin, unglingana og meistaraflokka ÍBV.


Kær kveðja,
Jón Ólafur Daníelsson
Höfundur hefur lifað hrærst í fótbolta allt sitt líf