Handknattleiksdeild ÍBV hefur samið við Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur til tveggja ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ÍBV.

Hanna, eins og hún er oftast kölluð, gekk til liðs við ÍBV fyrir tveimur árum síðan. Hún var að glíma við meiðsli fyrri hluta yfirstandandi tímabils eftir að hafa leikið stórkostlega í úrslitakeppninni í fyrra, þegar liðið fór í undanúrslit og var hársbreidd frá því að komast í úrslit. Hanna hefur verið að ná vopnum sínum aftur undanfarnar vikur og er komin á fullt með liðinu, en þær hefja úrslitakeppnina á morgun þegar Stjarnan kemur í heimsókn.

Aðspurð sagðist Hanna ánægð með þessa ákvörðun. Henni liði vel í Vestmannaeyjum og hjá ÍBV og að hún ætli sér stóra hluti á komandi tímum með liðinu. Hún vildi svo bæta við hvatningu til Eyjamanna að fjölmenna á leiki stelpnanna sem framundan eru í úrslitakeppninni!