Nú eru einungis tveir dagar í fyrsta leik Íslands á EM í Englandi. Leikurinn fer fram á sunnudag og hefst kl. 16, og er í beinni útsendingu á RÚV.

Einn helsti sparkspekingur Íslands, Hafliði Breiðfjörð sem á og rekur vefmiðilinn Fótbolta.net, er að sjálfsögðu mættur til Englands til að fylgja stelpunum okkar í landsliðinu.

Hann spáir Frakklandi sigri á mótinu og Íslandi upp í 8 liða úrslit. „Að mínu mati höfum við aldrei átt svona sterkt landslið þó svo við höfum átt sterkari einstaka leikmenn í gegnum tíðina. Ég býst við að Frakkland vinni mótið,“ sagði Hafliði.

Tvær Eyjastelpur eru í liðinu, þær Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Elísa Viðarsdóttir.
„Elísa og Berglind eru svolítið eins og hinn hefðbundni Eyjamaður; mjög miklir gleðigjafar í hópnum. Ég mynda mikið æfingar og leiki liðsins og það er nánast alltaf hægt að ganga að því sem vísu að einhver sé að hlæja í kringum þær þar sem þær eru,“ sagði Hafliði.

Ítarlegri umfjöllum um EM og stelpurnar okkar í nýjasta blaði Eyjafrétta sem kom út 6. júlí sl. 

Hafliði Breiðfjörð. Mynd: Mummi Lú.
Frá æfingu landsliðsins í Crewe í gær. Elísa fagnar í góðum hópi. Mynd: Hafliði Breiðfjörð hjá Fótbolti.net