Kubuneh-Allir skipta máli rekur heilsugæslu í þorpinu Kubuneh í Gambíu. Til að fjármagna reksturinn er félagið með verslun í Vestmannaeyjum með sama nafni og selur, notaðan, „second hand” fatnað. Hjónin  Þóra Hrönn og Daði Páls, sem eiga og reka verslunina láta sér fátt óviðkomandi sem getur bætt líf fólks í Kubuneh og nágrenni. Heilsugæslan þjónar um 10.000 manns og hefur styrkt sig í sessi og það nýjasta er fótboltalið.

„Þetta er fótboltaliðið okkar í Kubuneh – Runi Cashew Bi,“ segir á heimasíðunni Kubuneh-Allir skipta máli og er vísað til myndar sem fylgir færslunni.

„Í síðustu ferð okkar til Gambíu undirrituðum við samning um að styrkja fótboltaliðið. Áður en við komum til sögunnar áttu þeir ekki keppnisbúninga og máttu því ekki keppa í deildinni í Gambíu. Nú hafa þeir í fyrsta skipti eignast nýja búninga á allt liðið og við það hafa þeir öðlast keppnisrétt sem er risastórt skref fyrir strákana.

Þetta erum við að sjálfsögðu allt að gera fyrir peninga sem koma inn í Kubuneh verslun – Takk þið öll sem komið og styrkið starfið okkar  Leturstofan í Vestmannaeyjum er að vinna í að gera logo fyrir liðið sem síðan verður sett á búningana.“