Dagný Hauksdóttir, skipulags- og umhverfisfulltrúi Vestmannaeyjabæjar, leiðir verkefnið en í því felast forathuganir og undirbúningur fyrir nýtingu sjávarorku við Vestmannaeyjar.

Mikil þróun á sér stað í tækni varðandi öldu- og sjávarstraumsvirkjanir. Vestmannaeyjar eru umluktar sterkum sjávarstraumum og þar eru fáir aðrir staðbundnir orkukostir. Verkefmið snýst um að gera samantekt um þekkingu á sjávarstraumum við Vestmannaeyjar, um tengslamyndun við frumkvöðla og háskóla, upphaflegar rannsóknir, valkostagreiningu og tillögur að næstu skrefum.

Verkefnið hlaut 1,4 milljóna styrk úr sjóðnum, en alls fengu 21 verkefni víðs vegar um landið styrk úr sjóðnum og þar af tvö í Vestmannaeyjum. Verkefnin eru fjölbreytt og eru m.a. á sviði nýsköpunar í matvælavinnslu, uppbyggingu í vistkerfi nýsköpunar og STEAM greina og rannsókna á sviði sjávarfallavirkjana. Þá sýndu umsóknir um styrkina að um land allt er mikill áhugi hvað varðar nýtingu og sköpun verðmæta úr þörungum.

Alls bárust 100 umsóknir um styrki í ár og samtals var tæpu­­­m 100 m.kr. úthlutað til þeirra verkefna sem matshópur um veitingu Lóu nýsköpunarstyrkja taldi skara fram úr. Hlutverk Lóu er að styðja við nýsköpun, eflingu atvinnulífs og verðmætasköpun sem byggir á hugviti, þekkingu og nýrri færni, á forsendum svæða á landsbyggðinni. Styrkirnir veita aukinn slagkraft inn í nýsköpunarverkefni og stuðla að auknu samstarfi um land allt.

Dagný Hauksdóttir, skipuagls- og umhverfisfulltrúi Vestmannaeyjabæjar leiðir verkefnið.