Eftir mikla seinkun virðist pysjufjörið loksins vera að hefjast fyrir alvöru.
Fyrsta pysjan fannst 16. ágúst og í venjulegu ári myndi pysjunum fjölga smám saman eftir það og fjöldinn nà hámarki 2-3 vikum síðar. En ekkert hefur gerst fyrr en núna síðustu daga. Talið er að ætisskortur sé að valda þessari seinkun.
Nú hafa 20 pysjur verið skráðar inn á lundi.is og 15 þeirra hafa verið vigtaðar. Meðalþyngd þeirra er 262 grömm.
Pysjueftirlitið biðlar til bæjarbúa og annarra sem bjarga pysjunum að skrá þær inn á vefsíðuna lundi.is, ekki er nauðsynlegt að vigta þær, en skráningin gefur mjög mikilvægar upplýsingar um nýliðun hjá lundastofninum.
Lundinn er enn að bera síli í pysjuna og má því enn eiga von á þeim, þó að líklega verði þær ekki mjög margar í ár.
Þetta kemur fram á facebook síðunni hjá Pysjueftirlitinu.