„Tónleikarnir eru haldnir í tilefni þess að ég verð 60 ára þann 18. október. Ég á hlut í öllum lögunum, annað hvort bæði lag og texti  og þýðingar eða íslenska texta við erlend rokk og gospellög. Auk þess verður flutt lag sem ég samdi við rúmlega 130 ára gamalt ljóð Hannesar Hafstein og svo texti við lag Snorra Karls Pálssonar,“ segir Guðrún Erlingsdóttir, Eyjakona, fyrrum bæjarfulltrúi í bæjarstjórn Vestmannaeyja, formaður Verslunarmannafélagsins með meiru.

„Rokkkór Íslands og Vox Gospel sem er Gospelkór Hjallakirkju syngja á tónleikunum en ég syng í báðum kórunum. Kórstjóri beggja kóranna er Matthías V. Baldursson sem einnig spilar á píanó  og útsetur meirihluta laganna.

Þar sem umhverfismál og endurnýting eru í algleymi þá taka þrír einsöngvarar úr kórnum lagið, Tómas Guðmundsson, Áslaug Helga Hálfdánardóttir og Kristjana Þórey Ólafsdóttir, Eyjamær. Karlasveit Rokkkórins sem kemur í fyrsta skipti fram undir því nafni tekur eitt lag. Sönghópurinn Raddadadda en liðsmenn hans eru í kórnum taka nokkur lög og svo kemur nýstofnaður sönghópur eyjamanna í Rokkkórnum, Eyjapysjur í fyrsta skipti fram en í honum eru auk mín, Andrea Gísladóttir, Bjartey Sigurðardóttir, Árni Ingimarsson, Kristjana Þórey Ólafsdóttir, Petra Fanney Bragadóttir og Sísí Ástþórsdóttir.

Auk Matthíasar sem spilar á píanó og á ættir að rekja til Eyja spilar Sigurgeir Sigmundsson á gítar, hann er mörgum Eyjamönnum kunnur en hann var framkvæmdastjóri Týs í nokkur ár.

Tónleikarnir verða í Hjallakirkju  kl. 16.00 á laugardaginn 15. október. Það eru allir velkomnir og það væri gaman að fagna tímamótunum með vinum, ættingjum og samferðarmönnum.

Dagskráin verður fjölbreytt, allt frá ballöðum upp í kröftugt gospel og rokk. Ný lög eftir mig í bland við eldri og nýjar og eldri þýðingar og textar,“ sagði Guðrún.