Þóranna M. Sigurbergsdóttir

Í nokkur ár hef ég stundað kyrrðarbæn reglulega í einrúmi og með öðrum. Nánast hvern morgun byrja ég í kyrrð, sem er frábært á svo margan hátt, að leyfa Heilögum anda að koma og snerta og minna á ýmis atriði. Löng hefð er fyrir kyrrðarbæn meðal kristnna manna og undanfarin ár hefur rykið verið þurrkað af kyrrðarbæninni. Bænin er vilja ákvörðun og undirstaða samfélags okkar við Drottinn Guð er að taka sig frá og gefa sér tíma til íhugunar. En þegar þú biðst fyrir skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn sem er í leynum, Matt 6.6. Hugsanir vilja fara út um víðan völl, þar hjálpar bænaorðið mikið. Þess vegna er gott að hafa ákveðin stað og stund til að taka sig frá einslega í bæninni. Guð þekkir okkur betur en við sjálf. Þegar við komum í kyrrðina þá finnum við frið, öryggi og fullvissu um nærveru Drottins. Stundum hef ég fengið hugmyndir og/eða kraft til að takast á við ný verkefni eftir kyrrðabæn. Kyrrðarbæn í einrúmi góð, en einnig er frábært að koma saman í hóp, þá er ritningarvers lesið og síðan er kyrrð í 20 – 30 mínútur. Nokkur ár hef ég verið í hóp sem hittist vikulega og er það mjög dýrmætt. Kyrrðarbæn hentar fólki á öllum aldri og allir geta iðkað hana óháð kirkjudeild eða menningu. Það getur verið erfitt að byrja, en með aga og endurtekingu verður kyrrðarbænin eitt það mikilvægasta í lífinu. Með ástundun kryrrðarbænar tel ég að við nálgumst líf í fullri gnægð. Það er margs konar styrkur fyrir líkamann að iðka kyrrðarbæn og ég hef kynnst sjálfri mér betur. Ég hef öðlast innri lækningu og fundið fyrir kærleika á dýpri hátt en áður. Námskeið í kyrrðarbæn var haldið i Vestmannaeyjum nýlega og var mikill áhugi að halda áfram, því verða kyrrðarbænastundir á miðvikudögum kl. 17.30 í Safnaðarheimili Landakirkju og eru allir velkomnir.

Þóranna M. Sigurbergsdóttir