Á síðasta ári var landað 1.436.727 tonn­um í ís­lensk­um höfn­um og 74% afl­ans í tíu höfn­um, að því er fram kem­ur í um­fjöll­un í nýj­asta blaði 200 mílna. Þá var 77% af öll­um upp­sjáv­ar­afla landað í fimm höfn­um og 64% botn­fiskafla var landað í tíu höfn­um.

Nes­kaupstaðar var stærsta lönd­un­ar­höfn sjáv­ar­fangs árið 2022 og var þar landað rúm­lega 224 þúsund tonn­um. Á eft­ir fylgja Vest­manna­eyj­ar, Vopna­fjörður, Eskifjörður og Seyðis­fjörður.

Er upp­sjáv­ar­fisk­ur­inn af­ger­andi í þess­ari röðun. Hann var 93% þess afla sem landað var í Nes­kaupstað, 84,6% afla í Vest­manna­eyj­um, 89,5% afla á Vopnafirði, 98% afla landað á Eskif­irði og 93% afla sem skip báru til hafn­ar á Seyðis­firði.

Reykja­vík stærst í botn­fiski

Ef litið er til botn­fisk­teg­unda er Reykja­vík lang­stærsta lönd­un­ar­höfn lands­ins. Þriðja mesta þorskafla var landað í Reykja­vík en þangað skiluðu fiski­skip­in 14.704 tonn­um af ufsa og 8.891 tonni af karfa, lang­mesta magni allra hafna í þess­um teg­und­um. Þetta skýrist af því að Brim og Útgerðarfé­lag Reykja­vík­ur eru fyr­ir­ferðar­mik­il í þess­um teg­und­um.

Sér­staka at­hygli vek­ur að 64% botn­fiskafla ís­lenska fiski­skipa­flot­ans var landað í þeim tíu höfn­um þar sem mest­um slík­um afla var landað.

Nán­ar má lesa um lönd­un­ar­magn síðasta árs í 200 míl­um.