Leikfélag Vestmannaeyja frumsýndi í gær söngleikinn Rocky Horror við frábærar viðtökur. Verkið er eftir Richard O´Brien og var það fyrst frumsýnt árið 1973 í London. Verkinu hefur verið haldið uppi síðan þá með reglulegum sýningum víðsvegar í heiminum.

Gaman er að segja frá því að verkið hlaut styrk frá Uppbyggingasjóði Suðurlands til þess að setja upp sýninguna og styðja við hinsegin menningu og hinsegin umræðu innan samfélagsins út frá verkinu. Leikstjóri verksins er Árni Grétar Jóhannsson.

Söngleikurinn samanstendur af 9 persónum og leikendum, sögumanni, bakröddum, dönsurum/ gestum Franks, hljómsveit og stórum hóp sem starfar í kringum sýninguna. Það má því segja að öllu sé til tjaldað til þess að gera sýninguna að frábærri skemmtun.

Salurinn var þéttsetinn á frumsýningunni í gær sem tókst vel til. Áhorfendur voru hrifnir og tóku vel undir á meðan sýningunni stóð. Í lok sýningar var leikurum og öðrum sem stóðu að sýningunni vel fagnað og þeim þakkað með blómum fyrir frábært framtak.

Hvetjum alla þá sem vilja sjá skemmtilega sýningu og styðja við bakið á frábæru leikfélagi sem lagt hefur mikla vinnu í verkið að næla sér í miða. Uppselt er á allar sýningar helgarinnar, en næstu sýningartímar verða auglýstir á sunnudaginn.

 

Til hamingju með frábært framtak Leikfélag Vestmannaeyja.