Þeir Dwayne Atkinson og Richard King eru gengnir í raðir ÍBV frá þessu er greint á vefnum forbolti.net. Báðir koma þeir frá heimalandinu Jamaíku. Þeir skrifa undir samninga út tímabilið og er ÍBV með möguleika á að framlengja þá samninga. King er 21 árs gamall varnarmaður sem hefur leikið ellefu landsleiki (samkvæmt Transfermarkt) fyrir Jamaíku og Atkinson er tvítugur sóknarsinnaður miðjumaður sem á þrjá landsleik að baki. Eyjamaðurinn Heimir Hallgrímsson er landsliðsþjálfari Jamaíku.

Báðir voru leikmennirnir síðast hjá Cavalier FC í efstu deild á Jamaíku.

Oliver Heiðarsson framherji FH er að öllum líkindum að ganga í raðir ÍBV. Samkvæmt öruggum heimildum 433.is hefur FH samþykkt kauptilboð ÍBV í sóknarmanninn. Oliver sem er fæddur árið 2001 skoraði fimm mörk í 31 leik fyrir FH í deild og bikar á síðustu leiktíð.

ÍBV er með þrjú stig eftir þrjár umferðir í Bestu deildinni en liðið vann öflugan sigur á Íslandsmeisturum Breiðabliks á sunnudag.