Fundur var haldinn í stjórn Herjólfs ohf. þann 13. apríl síðastliðinn. Á dagskrá fundarins var einn dagskrárliður, breyting á gjaldskrá.
Lagt var til að gjaldskrá Herjólfs hækki um 9% á farþega og farartæki frá 5. maí 2023. Gjald fyrir kojur/klefa, atvinnutæki og stærri flutninga mun haldast óbreytt.

Fram kemur í fundargerð að framlög ríkisins til rekstrarins hafa lækkað um 145 milljónir króna á samningstímanum auk þess hefur allur rekstrarkostnaður hækkað. Ferjuvísitala er gjaldskrár viðmið í rekstri Herjólfs ohf. og hefur hún á sama tíma hækkað um 19,65% en hún breytist í samræmi við launavísitölu (60%), byggingarvísitölu (20%), rafmagn (15%) og hafnargjöld (5%). Olíukostnaður er ekki inní ferjuvísitölunni en hann hefur einnig hækkað umtalsvert á samningstímanum.

Í niðurstöðu um málið kemur fram að gjaldskrá Herjólfs hækkaði síðast 1. janúar 2023 og var reynt að hafa þá hækkun eins milda og hægt var enda eitt af markmiðum félagsins að hafa hóflega gjaldskrá. Nú er ljóst að sú hækkun endurspeglar ekki þær kostnaðarhækkanir sem hafa verið á flestum rekstrarliðum félagsins og þá lækkun á framlagi ríkisins til rekstrarins. Stjórn Herjólfs samþykkir hækkun á gjaldskrá Herjólfs til að tryggja áframhaldandi framúrskarandi þjónustu.
Stjórnin felur framkvæmdastjóra að leita samþykkis Vegagerðar og bæjarráðs fyrir þessum
breytingum.