Þann 12. maí, á Alþjóðlegum degi hjúkrunarfræðinga hlaut Iðunn Dísa Jóhannesdóttir hvatningarstyrk að upphæð 500.000 kr. Styrkurinn er veittur árlega til framúrskarandi hjúkrunarfræðinga sem hafa haft áhrif á þróun hjúkrunar eða heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Styrknum er ætlað að styðja hjúkrunarfræðinga til að afla sér frekari þekkingar og/eða þjálfunar sem nýtist þeim til að þróa enn frekar sín verkefni sem tengjast hjúkrun og þeir eru í forsvari fyrir eða leiða. Hvatningarstyrkir eru veittir einstaklingum en ekki fyrir verkefni eða rannsóknir sem eru fjármagnaðar að fullu eða hluta annarstaðar.

Í rökstuðningi segir:
Iðunn Dísa er hjúkrunarfræðingur og starfar á heilsugæslu Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum. Iðunn er klínískur fagmaður fram í fingurgóma. Í störfum sínum nýtur Iðunn ómældrar virðingar samstarfsfólks og skjólstæðinga fyrir einstaka fagmennsku og nærveru.