Hin virta YCO, Youth Chamber Orchestra, strengjasveit ungmenna frá Fíladelfíu í Bandaríkjunum hélt glæsilega tónleika í Eldheimum í gær. Á efnisskránni voru þættir úr strengjakvartettum, píanótríóum og kvintettum eftir Beethoven, Brams, Grieg, Mendelsohn og Schubert. Einnig var leikið verkið “Islands” en Snorri Sigfús Birgisson samdi verkið fyrir YCO og tileinkaði það stjórnanda hljómsveitarinnar Aaron Picht. Verkið var frumflutt í Fíladelfíu árið 2022 og var flutt nú í fyrsta skiptið á Íslandi.

Tónleikarnir voru glæsilegir en YCO er skipuð 20 úrvals nemendum á aldrinum 13-18 ára, úr tónlistarprógramminu Music Prep’s Center for Gifted Young Musicians sem stofnað var 1986. Í prógramminu eru starfandi þrjár strengjasveitir og minni kammerhópar sem njóta leiðsagnar meðlima í The Philadelphia Orchestra og leiðandi tónlistarmanna í Fíladelfíu. Aaron Picht hefur verið stjórnandi sveitarinnar frá 2013.

YCO hefur verið í samstarfi við Tónskóla Sigursveins í rúman áratug og heimsækir nú Ísland í fjórða sinn. Fyrir utan Eldheima  heldur sveitin tvenna aðra tónleika á Íslandi. Í Listasafni Reykjavíkur og í Hörpu.