Það stefnir í hörku dansiball á Skipasandi laugardagskvöldið 8. júlí þar sem eyjahljómsveitirnar Mucky Muck, Memm og Brimnes munu leika fyrir dansi fram á rauða nótt. Nú á dögum hitti blaðamaður á Memm menn og konu á háalofti Hallarinnar þar sem stífar æfingar voru í gangi fyrir stóra kvöldið.

Hljómsveitina skipa söngvararnir Hafþór Elí Hafsteinsson og Guðný Emilíana Tórshamar, gítarleikararnir Helgi Rasmussen Tórshamar og Ólafur Birgir Georgsson, Viktor Ragnarsson bassaleikari, Bjarki Ingason trommuleikari, Páll Viðar Kristinsson hljómborðsleikari, og hljóðmaðurinn Hörður Þór Harðarson.

Þeim er vel til vina þó aldursbilið sé mest um 30 ár og eru þau mörg hver í sömu fjölskyldunni. „Helgi og Guðný eru feðgin, og svo erum ég og Höddi hljóðmaður systkinabörn” segir Hafþór Elí.

Hafþór segist sækja innblástur í aðrar íslenskar ballhljómsveitir og að þar komi Stuðlabandið sterkt inn. „Frábært líka að vera með tvo reynslubolta með sér á sviðinu, þá Helga og Viktor. Maður sækir mikið í þá” segir Hafþór.

„Það leggst hrikalega vel í okkur að fara að spila á Goslokum. Skemmtilegt að það sé verið að leyfa öllum að vera með sem vilja ” segir Hafþór og bætir við að Eyjamenn megi búast við brjálaðri stemningu og góðri blöndu af bæði íslenskri og erlendri balltónlist. 

Memm spilaði fyrir Þjóðhátíðargesti á Tjarnarsviðinu í fyrra og hefur m.a. verið að taka lagið á árshátíðum og þorrablótum síðan þá. Sveitin á 1. árs afmæli nú í sumar og samkvæmt Hafþóri er nóg eftir.