Efnt er til sérstaks hátíðarviðburðar í tilefni þess að mánudaginn 3. júlí 2023, verða 50 ár liðin frá lokum eldgossins á Heimaey.

Viðburðurinn fer fram á Skansinum þann 3. júlí 2023 og hefst kl. 17:00. Þar verða ávörp forseta Íslands, forsætisráðherra, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, f.h. Norðurlandanna og bæjarstjóra Vestmannaeyja. Jafnframt verða tónlistaratriði í boði Júníusar Meyvant, Silju Elsabetar Brynjarsdóttur og Helgu Bryndísar Magnúsddóttur (söngur og píanó) og Pétur Erlendsson flytur Goslokalagið 2023.

Vestmannaeyingar og aðrir sem staddir verða í Eyjum þennan dag eru hvattir til að mæta á Skansinn og taka þátt í að minnast þessara tímamóta. Vestmannaeyingar vilja þakka öllum þeim ríkjum sem studdu svo myndarlega við bakið á samfélaginu og öllum þeim einstaklingum sem stóðu vaktina þessa örlagaríku mánuði. Það er ljóst að Vestmannaeyjar hefðu ekki orðið að því blómlega samfélagi sem það er í dag nema með stuðningi annarra ríkja og vinnu þeirra fjölmörgu einstaklinga sem stóðu í eldlínunni svo mánuðum skipti.

Vestmannaeyjabær vill óska sérstaklega eftir því við þá Eyjamenn sem unnu að björgunarstörfum, hreinsun og öðrum innviðastörfum í Vestmannaeyjum meðan á gosinu stóð, að mæta á viðburðinn á Skansinum sem sérstakir heiðursgestir. Tekin verða frá sæti innan grjóthleðslunnar við Stafkirkjuna fyrir umrædda einstaklinga og þeim þakkað sérstaklega fyrir frábær og óeigingjörn störf. Þar sem Vestmannaeyjabær býr ekki yfir nákvæmum upplýsingum um alla þá sem unnu umrædd störf er þess farið á leit við þá einstaklinga sem eru ferðafærir, að mæta á viðburðinn og sitja saman sem hópur á einum stað.

F.h afmælisnefndar

Páll Magnússon