Hátíðarviðburður í tilefni 50 ára goslokaafmælis verður á Skansinum í dag klukkan fimm og eru bæjarbúar og gestir hvattir til þess að mæta.

Forseti Íslands flytur ávarp en hann mætti til Vestmannaeyja í morgun með safnskipinu Óðni sem verður til sýningar í kvöld. Forsætisráðherra Íslands, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, f.h. Norðurlandanna og bæjarstjóri Vestmannaeyja munu einnig flytja ávörp.

Pétur Erlendsson frumflytur goslokalagið 2023 sem ber nafnið „Mín Heimaey”. Jafnframt verða tónlistaratriði í boði Júníusar Meyvants, Silju Elsabetar Brynjarsdóttur og Helgu Bryndísar Magnúsdóttur.