„Það er gríðarlega ánægjulegt að það sé komin niðurstaða í þetta mál og ákaflega viðeigandi að skrifa undir á þessum stað og þessum degi. Það er hagsmunamál okkar Eyjamanna að hingað komi önnur vatnsleiðsla þannig að ég er glöð í dag,“ sagði Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum eftir að skrifað var undir viljayfirlýsingu um nýja vatnsleiðslu til Vestmannaeyja.

Undirritunin fór fram á Skansinum þar sem vatnsleiðslan frá landi kemur upp á Heimaey og í dag eru 50 ár frá lokum Heimaeyjargossins 1973. Íris skrifaði undir fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og innviðaráðherra sem var á staðnum og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra sem var í beinni á netinu skrifuðu undir fyrir hönd ríkisins.

Í viljayfirlýsingunni felst að ríkið leggur fé í lagningu vatnsleiðslunnar sem áætlað er að verði lögð sumarið 2023. Er það gert í ljósi almannavarna því án vatns yrði flytja flesta íbúa Vestmannaeyja til lands.