Halldóra Hermannsdóttir er sem stendur með sýningu undir yfirskriftinni „Lífgrös” í elsta fæðingarheimili Íslands, Landlyst á Skansinum. Þar eru til sýnis myndir af lækningajurtum sem vaxa á eyjunni og tóku þátt í að græða hana eftir Heimaeyjargosið.

„Þegar þessi hugmynd kom að ég myndi sýna hér á goslokum þá fór ég að hugleiða hvað ég gæti gert sem væri tengt gosinu” segir Halldóra en þá var hún á fullu að lesa sér til um lækningajurtir og mála þær. „Ég hugsaði að þær tengjast ekkert eldgosinu. En jú, svo sannarlega gera þær það því eftir eldgosið þá eru það þær sem græða jörðina” segir Halldóra og fullkomnaðist hringurinn þegar í ljós kom að sýningin færi fram í Landlyst.

Halldóra er gift eyjamanninum Stefáni Hauki Jóhannessyni, sendiherra Íslands í Japan og eru þau búsett þar. Myndirnar eru því málaðar á annarri eldfjallaeyju. „Þær eru unnar með gamalli hefð. Þetta er málaratækni flæmsku málaranna og því eru myndirnar unnar mjög hægt og rólega og eru miklar hugleiðingar í vinnslunni og við gerðina” segir Halldóra.

Það sem er Halldóru efst í huga um Vestmannaeyjar er þakklæti fyrir samfélagið, krafturinn, gleðin og dugnaðurinn í Eyjamönnum. „Ég tengi mjög sterkt til Eyja og það er alltaf gott að koma hingað” segir Halldóra.

Sýningin er opin til klukkan 17:00 í dag, laugardag.