Þaulreyndur í fjallgöngum, Matthew Matis, 16 ára drengur frá Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, skaust framhjá blaðamanni niður Heimaklett sem rétt svo náði að stoppa hann af til að ná af honum tali. „Ég vissi að ég þyrfti að kíkja hingað upp strax þegar ég sá Klettinn og útsýnið var heldur betur þess virði. Það er hægt að sjá alla eyjuna héðan” segir Matthew sem gerði sér leið upp Eldfell og Helgafell daginn eftir. Hann sótti sér næringu á Kránni áður en hann lagði upp Klettinn. „Ég fékk mér lambið sem var besta lamb sem ég hef smakkað” en Matthew á við lambakóteletturnar sem þar eru á matseðli. 

Ótrúlegt að læra um gosið 

„Amma mín og afi fóru til Íslands fyrir sex árum og urðu ástfangin af landinu, þannig í þetta skiptið urðu ég og mamma samferða” segir hann en fjölskyldan las um Vestmannaeyjar í ferðahandbók og ákváðu að gefa Eyjunum tækifæri. „Ísland er frábært í alla staði og íbúarnir sérstaklega. Það er öruggt að segja að Vestmannaeyjabær er í uppáhaldi hjá mér og ég get ekki beðið eftir að koma aftur,” segir Matthew en hann las sér til um Heimaeyjargosið og segir það hafa verið hálf ótrúlegt að fræðast  um það. 

Myndatexti: Matthew á toppi Eldfells ásamt móður sinni, afa og ömmu.