Í ár verður sú breyting á að allur akstur inn fyrir hlið í Herjólfsdal er bannaður. Þessi ákvörðun er tekin í samráði við lögreglu. Aukist hefur til muna síðustu ár að fólk keyri inn í dal og leggi bílum þar. Það er mikið öryggisatriði að viðbragðsaðilar hafi svigrúm til að athafna sig inn á svæðinu, segir í tilkynningu frá þjóðhátíðarnefnd.

Þeir sem ekki treysta sér að ganga inn að svæði frá hliði geta fengið far frá íþróttamiðstöð inn í dal með bifreið sem keyrir inn fyrir hlið. Hún keyrir svo fólki að sjálfsögðu til baka. Bifreiðin gengur á korters fresti.

„Við viljum ítreka að þessi þjónusta er ætluð þeim sem illa ráða við að ganga frá hliði inn í dal og einum fylgdarmanni með þeim. Við vonum að þessu verði sýndur skilningur og að þetta valdi ekki miklum óþægindum” segir jafnframt í tilkynningunni.

Bifreiðin gengur frá föstudegi til sunnudags á milli 14:00-18:00 og 20:00-02:00. Frítt er fyrir eldri borgara og fylgdarmann.