„Við vorum með sama viðbúnað fyrir þjóðhátíðina í ár og á síðasta ári. Bjuggum að því að meðal starfsmanna var fólk sem var með okkur í fyrra,“ sagði Sreten Ævar rekstrarstjóri Landamerkis sem hefur umsjón með  tjaldsvæðinu við Þórsheimilið sem er þjónustuhús fyrir tjaldsvæðið.

Tilefnið er óánægja gesta með umgengni á tjaldsvæði og óþrifnað í Þórsheimilinu sem sagt var frá í Eyjafréttum.is í síðustu viku. Sreten Ævar viðurkennir að ýmislegt hefði mátt betur fara og ástæðurnar séu fleiri en ein. Hefðbundið tjaldsvæði er sunnan við Þórsheimilið en á þjóðátíð er Þórsvöllurinn lagður undir svokallað VIP-tjaldsvæði sem ætlað er þjóðhátíðargestum. „Þarna varð ruglingur. Við vildum  hafa armbönd fyrir gesti á tjaldsvæðinu í öðrum lit en armbönd gesta á VIP-svæðinu. Við ræddum þetta við mótshaldara en liturinn varð sá sami.“

Sreten Ævar segir að það hafi valdið ruglingi og álagið á Þórsheimilinu hafi orðið miklu meira en reiknað var með. „Þetta olli erfiðleikum hjá okkur því fólkið á VIP-svæðinu hafði ekki rétt á að nýta sér þjónustuna í Þórsheimilinu.“

Þá segir Sreten Ævar að rúta hafi verið á svæðinu sem greinilega hafi var söluvagn fyrir eiturlyf. „Ég var spurður út í þetta en taldi okkur ekki hafa lögsögu til afskipta. Þetta varð til þess að fólk undir áhrifum olli okkur vandræðum og varð til þess að fjöldinn sem fór um húsið var miklu meiri en við reiknuðum með.“

Varðandi meintan óþrifnað í Þórsheilinu sendi Sreten Ævar ljósmyndir sem teknar voru á þjóðhátíðinni. Sýna þær að þrif í Þórsheimilinu hafi verið í lagi. „Okkur er kennt um umgengnina og við verðum að taka á því. Sjá til þess að þetta gerist ekki aftur. Næsta ár verðum við með tvisvar sinnum fleira starfsfólk.

Förum yfir það með mótshöldurum hvað við getum gert betur og finna lausn á lit armbandanna. Síðast en ekki síst, að ræða við lögreglu hvernig eigi að bregðast við grun um eiturlyfjasölu. Við viljum gera okkar besta og þannig að sómi sé að. Hvað varðar rafmagnið, fórum við fram á endurbætur en því var ekki sinnt,“ sagði Sreten Ævar og bætti við.

„Við tökum fulla ábyrgð á að hreinsun var ófullnægjandi eftir hátíðina. Viljum við biðja Vestmannaeyinga afsökunar á því og erum þakklát þeim sem tóku sig til og hreinsuðu Þórsvöllinn. Hvað mig sjálfan varðar, þykir mér þetta mjög miður og biðst afsökunar á því.“

Mynd frá Landamerki tekin í Þórsheimilinu um þjóðhátíðina.