Kvennakór Vestmannaeyja tók þátt í þjóðhátíðarlaginu í ár í annað skiptið. Kristín Halldórsdóttir meðstjórnandi Kvennakórs Vestmannaeyja og frumkvöðull kórsins sagði frá stofnun kórsins og þeirri upplifun að fá að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni í 15. tbl Eyjafrétta.

Skellti í Facebook færslu

Kvennakór Vestmannaeyja var stofnaður árið 2020 þegar Kristín Halldórsdóttir tók þá ákvörðun að skella í eina Facebook færslu á síðunni “Kvenfólk í Eyjum” og kanna hvort hún fyndi ekki nokkrar konur sem hefðu áhuga á að stofna sönghóp eða jafnvel lítinn kór. “Ég veit nefnilega að það er ótrúlega mikið af Eyjamönnum sem elska að syngja og held að það sé okkur í blóð borið. Það stóð ekki á viðbrögðum við þessari færslu minni en 180 kommentum síðar var ákveðin stofnfundur kórsins 1. mars 2020.

 Á sjötta tug kvenna mætti á stofnfundinn og hófust æfingar stuttu síðar. Starfið hefur samt ekki gengið áfallalaust fyrir sig og nokkrir hnökrar hafa vissulega verið á starfi og rekstri kórsins síðan þá. Við könnumst öll við orð eins og hópamyndanir, fjöldatakmörk og sóttvarnarreglu og setti sú uppákoma sannarlega strik í reikninginn hjá þessum nýstofnaða kór strax í upphafi bæði varðandi æfingar og rekstur kórsins sem varð rosalega þungur á þessum tíma. En með dyggri aðstoð nokkurra fyrirtækja hér í Eyjum tókst okkur að halda þessu öllu gangandi og erum við þeim fyrirtækjum ævinlega þakklátar. Í dag eru 30 konur starfandi í kórnum og ótrúlega skemmtilegur og fjölbreyttur hópur.“  

 Tóku þátt í þjóðhátíðarlaginu annað árið í röð 

“Þetta er annað árið í röð sem okkur hlotnast sá heiður að taka þátt í frumflutningi Þjóðhátíðarlagsins og þetta er alveg mögnuð tilfinning að standa uppi á þessu risastóra sviði og horfa yfir brekkuna.

Klara Elías og Emmsjé Gauti eru alveg svakalega ólíkir tónlistamenn að vinna með. Klara er með allt á hreinu og með ákveðnar skoðanir á hlutunum á meðan Gauti er rosalega slakur að eðlisfari og spilar þetta meira „as we go“. Hann er alveg hrikalega skemmtileg týpa með endalausa orku og maður er bara einhvern veginn slakur í kringum hann. Í fyrra vorum við að gera þetta í fyrsta skiptið og það var pínu svona stress í gangi kannski þess vegna en núna erum við orðnar „sjóaðar“. Gauti er ótrúlega rólegur yfir þessu þannig að það róar mann líka helling. Við hlökkum bara rosalega til og vonandi skilum við þessu vel af okkur.  

Við erum alveg svakalega þakklátar að fá að taka þátt í þessu magnaða ævintýri annað árið í röð. Það er gríðarlegur heiður fyrir svona nýjan kór að fá svona tækifæri og að heyra raddir okkar kvenna óma í útvarpi oft á dag er algjörlega ólýsanleg tilfinning”, segir Kristín að lokum.