Rekstur tjaldsvæða var til umræðu á fundi bæjarráðs í gær en mikil óánægja ríkiti um umgengni, þrif og aðstöðu á tjaldsvæðinu við Þórsheimilið meðan á Þjóðhátíð stóð fyrr í þessum mánuði. Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum voru upplýst um stöðuna um Þjóðhátíðarhelgina og brugðist var strax við með því að hafa samband við reksraraðila tjaldsvæðisins. Allir aðilar er sammála um að ástandið hafi verið óviðunandi og tryggja þurfi að svona umgengni og viðbrögð endurtaki sig ekki.

Í niðurstöðu um málið kemur fram að framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs er falið að óska eftir fundi með fulltrúum rekstraraðila tjaldsvæðisins til þess að ræða stöðuna og alvarleika málsins. Jafnframt er framkvæmdastjórunum falið að ræða efni samnings milli Vestmannaeyjabæjar og rekstraraðila um rekstur tjaldsvæðisins.