Niðurstöður frá sameiginlegum uppsjávarleiðangri Íslendinga, Færeyinga, Norðmanna og Dana sýna að lífsmassi makríls hefur ekki mælst minni síðan árið 2007 á Norðaustur-Atlantshafi. Leiðangurinn var farinn á tímabilinu 1. júli til 3. ágúst í sumar.

Þetta kemur fram í frétt á vef Hafrannsóknastofnunar.

Vístitala lífmassa makríls var metin á 4,3 milljón tonn sem er 42% lækkun frá árinu í fyrra. Þá segir að vísitalan í ár sé tæplega 40% lægri en langtímameðaltal gagnaseríunnar sem er 7,1 milljónir tonna.

Vísitalan byggir á afla í 218 yfirborðstogum á fyrirfram ákveðnum stöðum. Óvissumörk í kringum matið eru mun minni í ár þar sem engar togstöðvar voru með einstaklega mikinn afla líkt og í fyrra.

„Meginmarkmið þessa árlega leiðangurs var að meta magn uppsjávarfiska í Norðaustur-Atlantshafi að sumarlagi en jafnframt að rannsaka vistkerfi og umhverfi sjávar. Leiðangurssvæðið var 2,4 milljón ferkílómetrar sem er 19% minna en síðasta ár þar sem ekki var farið inn í Grænlenska landhelgi og einungis suður að 62°N breiddargráðu í Íslandsdjúpi,” segir í fréttinni.

Mesti þéttleikinn fyrir sunnan

Útbreiðsla makríls við Ísland var mun minni í ár en síðasta sumar. Mesti þéttleikinn fannst fyrir sunnan og fannst makríll bæði yfir landgrunninu og við landgrunnsbrúnina. Mun minni makríll mældis fyrir vestan ef borið er saman við árið í fyrra. Meiri hluti stofnsins fannst norðaustan til í Noregshafi líkt og undanfarin ár.

Heildarmassi makríls sem mældist í íslenskri landhelgi mældist um 10,3% samanborið við 18,9% árið áður.

Meðalhiti í yfirborðslögum sjávar austan, sunnan og vestan við Ísland var hærri í júlí en á sama tíma í fyrra. Bæði yfirborðshiti við Ísland og Noreg mældist yfir meðaltali síðustu 20 ára en undir meðaltali fyrir norðan Ísland.

Þá jókst vístitala um magn dýrasvifs á hafsvæðinu í júlí bæði við Ísland og í Noregshafi miðað við síðustu tvö sumar og svipaði til langtímameðaltali ársins 2010.