9. september nk. kl. 12.00 -18.00 verður haldið 50 ára gosloka skákmót í opna rýminu í Þekkingarsetri Vm. að Ægisgötu 2. Taflfélag Vestmannaeyja stendur fyrir mótinu,  en Vestmannaeyjabær er helsti stuðningsaðili  þess  ásamt nokkrum fyrirtækjum. TV hefur áður staðið fyrir sterkum  minningar atskákmótum á sama stað, Beddamótinu 11. maí 2019 og Pallamótinu 5. júní 2021.

Tefldar verða átta umferðir, umhugsunartími á  keppanda er 15 mín. á skák + 5 sek. á leik.  Skráning keppenda á mótið stendur nú yfir á skák.is en einnig er hægt að fá upplýsingar og skrá sig i síma 611-2284.  Reikna má með að meirihluti keppenda komi ofan af landi og  í þeim hópi eru nokkrir stórmeistarar, en  keppendur eru á öllum og  styrkleikaflokkum.  Veitt verða myndarlega verðlaun fyrir efstu þrjú sætin á mótinu og sérstök verðlaun fyrir  yngstu keppendur ná ná bestum árangri. Ekkert mótsgjald og öllum heimil þátttaka.

Skákkennsla fyrir  nemendur í GRV
Skákkennsla ungmenna í GRV á vegum Taflfélags Vestmannaeyja  hefst í skákheimili TV að Heiðarvegi 9 og er stefnt á 18. sept. nk. Kennt verður á mánudögum kl. 17.30-18.30  og fimmtudögum kl .17.30-18.30.  Auk skákkennslu fyrir byrjendur og þau

sem lengra eru komin verða nokkur létt skákmót eins og undanfarin ár. Fjórir leiðbeinendur munu skiptast á um kennsluna í haust og vetur, Sæmundur Einarsson, Sæþór Ingi Sæmundarson, Guðgeir Jónsson og Karl Gauti Jónsson form. TV.

TV með lið í úrvalsdeild á Íslandsmóti skákfélaga 2023-2024
Íslandsmót skákfélaga 2023- 2024 fyrrihluti  fer fram í Fjölnishöllinni í Grafarvogi 12.-15. október nk.  TV verður með þrjár keppnissveitir á mótinu.

Sveit TV varð efst í 1. deild 2022-2023 og teflir í úrvalsdeild 2023-24. Að vera með sveit í úrvaldsdeild á Íslandsmóti skákfélaga er krefjandi verkefni, en þar tefla sex átta manna skáksveitir  og  í þeim öllum  eru  stórmeistarar og alþjóðlegir skákmeistarar.

TV þurfti því að styrkja sitt lið verulega og fá nokkra nýja  liðsmenn enda fjölgar um tvo í sveitinni.   Liðstjóri í TV í úrvaldsdeild er Þorsteinn Þorsteinsson skákmeistari en hann hefur stýrt liðinu undanfarin ár og  átt stóran þátt  að koma liðinu upp í úrvalsdeild.

Skáksveit TV er nýliðinn í úrvalsdeild og þar eru fyrir á fleti fimm  öflugar skáksveitir með stigahærri skákmenn en TV innanborðs.

Þá verður TV með eina sex manna sveit í 3ju deild en þar er Hallgrímur Steinsson liðstjóri og eina í 4. deild  undir stjórn Ólafs Hermannssonar eins og undanfarin ár.  Alls koma um 30 keppendur, félagar í  TV og eru þeir ýmist búsettir í Eyjum eða uppi á landi auk þess mun  tvítugur alþjóðlegur  skákmeistari frá Danmörku tefla fyrir TV  í úrvaldsdeild.   Heildarfjöldi keppendur á Íslandsmóti skákfélaga  eru liðlega 300 og koma frá skákfélögum víðvegar um land.   Frétt frá TV.