Bæjarráð ræddi á fundi sínum í vikunni nýútgefnar niðurstöður (skýrslu) starfshópa, sem skipaðir voru af Svandísi Svavarsdóttur, matvælaráðherra í maí 2022. Fjöldi sérfræðinga tóku þátt í vinnunni og þann 29. ágúst sl., voru meginniðurstöður starfshópanna kynntar. Skýrslan inniheldur 30 tillögur, sem upphaf að frekari umræðu og vinnu um málefnið.

Samhliða vinnu starfshópanna voru unnin drög að stefnu um sjávarútveg, sem m.a. byggja á matvælastefnu til ársins 2040. Sú stefna inniheldur framtíðarsýn íslensks sjávarútvegs til 2040.

Skýrslan hefur verið birt í Samráðsgátt stjórnvalda, þar sem gefinn verður kostur á að veita umsagnir um málið. Frestur er veittur til 26. september nk. Í framhaldi stendur til að vinna frumvarp til nýrra heildarlaga um nýtingu og stjórnun nytjastofna sjávar.

Fram kemur í niðurstöðu um málið að bæjarráð telur mikilvægt að vel takist til og að horft verði til framfara og aukinnar verðmætasköpunar frá sjávarútvegi, þar sem aflamarkskerfið verður nú sem fyrr grundvöllur sjálfbærrar nýtingar auðlindarinnar. Samfélagið í Vestmannaeyjum á mikið undir því að samkeppnishæfni sjávarútvegs sé treyst og löggjöf styðji við framfarir í greininni. Þá telur bæjarráð brýnt að hafrannsóknir verði efldar til muna, enda eru þær forsenda þess að verðmæti verði til úr sjávarauðlindinni. Nærtækt er að líta til ónógra loðnurannsókna, sem reynst hafa Vestmanneyingum og samfélaginu öllu dýrkeyptar. Brýnt er að mati bæjarráðs að gera á þessu bót.