Kvennalið ÍBV hefur farið vel af stað á þessu tímabili og unnið sína tvo fyrstu leiki. Annarsvegar KA/Þór fyrir norðan og svo Haukastúlkur á heimavelli. Liðið situr á toppi Olísdeildarinnar með fullt hús stiga ásamt Valsstúlkum. En þessi tvö lið mætast í toppslag á Hlíðarenda í kvöld. Leikurinn verður í beinni útsendingu á handboltarás Símans.

Eins og síðustu ár eru það þeir Sigurður Bragason og Hilmar Ágúst Björnsson sem stýra liðinu. Sigurður segir markmið vetrarins ekki vera neitt leyndarmál. „Markmiðin eru í raun þau sömu og í fyrra. Það er að vera vel gjaldgeng í toppbaráttunni og berjast um alla titlana sem eru í boði.“ Við ræddum við Sigga um liðið og tímabilið í nýjasta tölublaði Eyjafrétta sem dreift verður á fimmtudag.