Sinfóníuhljómsveit Suðurlands heldur óperutónleika í Eldheimum föstudaginn 29. september kl. 19:00. Aðalsöngvari tónleikanna er Eyjamaðurinn og tenórinn Alexander Jarl Þorsteinsson en auk hans koma Monica Iusco sópran og Kvennakór Vestmannaeyja fram með hljómsveitinni.

Fluttar verða margar af helstu perlum óperusögunnar sem sumar hverjar hafa verið í uppáhaldi hjá Alexander Jarli frá unga aldri eða allt frá því hann féll fyrir óperutónlist 5 ára gamall. Þökk sé föðurafa hans. Á tónleikunum syngur Alexander Jarl m.a. dúett með sópransöngkonunni Monicu Iusco. Hún lærði klassískan söng í heimalandinu Rúmeníu og einnig á Ítalíu og hefur komið fram á fjölda tónleika.

Þetta er í annað sinn á stuttum ferli sem Sinfóníuhljómsveit Suðurlands heldur tónleika í Vestmannaeyjum enda metnaðarmál aðstandenda að spila sem víðast í landshlutanum og vera þannig hljómsveit allra Sunnlendinga. Það er einnig metnaðarmál að laða að góða samstarfsaðila og því sérlega ánægjulegt að Kvennakór Vestmannaeyja skuli taka þátt í tónleikunum. Stjórnandi Kvennakórsins er Kittý Kovács.

Auk óperutónleikanna heldur hljómsveitin skólatónleika fyrir nemendur grunnskólans. Þar verður m.a. flutt tónverkið Stúlkan í turninum eftir Snorra Sigfús Birgisson tónskáld. Tónverkið samdi hann við samnefnda sögu Jónasar Hallgímssonar og skólatónleikunum líkur með því að nemendur syngja með hljómsveitinni lag sem þau hafa æft með kennurum sínum.

Hljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands er Guðmundur Óli Gunnarsson.

Miðasala fer fram á tix.is.

Sinfóníuhljómsveit Suðurlands 

Myndir: Aðsendar