Hugtakið „ferðamannasumar“ á hvergi á Íslandi jafn djúpar rætur og í ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum þar sem greinin nánast leggst í dvala yfir vetrarmánuðina. Málin hafa þó þróast á þann hátt síðustu ár að tímabilið að er stöðugt að lengjast. Það er og verður þó alltaf bundið áreiðanlegri ferðum til Eyja í gegnum Landeyjahöfn. Farþegatölur Herjólfs á þessu ári gefa nokkuð áreiðanlegar vísbendingar um stöðuna. Í lok september lágu fyrir upplýsingar um að á þessu ári hefðu 353.002 farþegar ferðast með Herjólfi, sem er rúmlega 25.759 fleiri farþegar en á sama tíma í fyrra. Alls voru 86.637 þúsund farþegar í ágúst og 89.771 í júlímánuði einum, sem er stærsti einstaki mánuður í farþegafjölda frá upphafi.  

Skemmtiferðskipin skipta máli

Ferðamenn koma ekki bara sjóleiðina til Eyja með Herjólfi en á fundi Framkvæmda -og hafnarráðs í vikunni sem leið var tekið fyrir sex mánaða rekstraryfirlit Vestmannaeyjahafnar. „Fyrir liggur 6 mánaða rekstraryfirlit Vestmannaeyjahafnar. Tekjur hafnarinnar fyrst 6 mánuði ársins voru 377 milljónir og rekstrarniðurstaðan um 80 milljón þegar búið er að taka tillit til afskrifta. Áætlun ársins 2023 gerði ráð fyrir að tekjur á tímabilinu yrði rúmar 286 milljónir og jákvæðri rekstrarniðurstöðu upp á tæpar 8 milljónir.“ Þær ástæðu sem sagðar voru vega þyngst í þessari góðu afkomu umfram það sem áætlun gerði ráð fyrir voru annar vegar góð aflabrögð. Hin var nefnd sú að góð veðurskilyrði í sumar skilaði tíðum komum skemmtiferðaskipa umfram það sem áætlun gerði ráð fyrir. 

Þær upplýsingar fengust enn fremur hjá Vestmannaeyjahöfn að alls hafi 97 skemmtiferðaskip haft viðkomu í Vestmannaeyjum í sumar sem báru samtals 32.956 farþega og vógu samtals 2.189.829 brúttótonn. Stærsta skipið sem var tekið inn þetta sumarið var Amera eins og fyrri ár. Það er 204 metrar og 39.051 brúttótonn. Stærsta skip sem kom á legu var Borealis, 238 metrar og tekur 1.404 farþega.   

Það er ekki nóg að koma fólki til Eyja það verður að vera fyrir hendi afþreying og þjónusta fyrir allt þetta fólk. Við tókum hús á nokkrum ferðaþjónustuaðilum og ræddum um sumarið sem leið.  

Fyrsta sumarið vonum framar

Fyrirtækið Eyjascooter kom nýtt inn á markaðinn í sumar. Fyrirtækið er í eigu þeirra Ingibjargar Bryngeirsdóttur og Hreiðars Arnar Svanssonar. Þau bjóða upp á ferðir um Heimaey á rafhlaupahjólum með leiðsögn. Við ræddum við Ingibjörgu um hvernig þetta fyrsta sumar þeirra hafi gengið. „Sumarið var nokkuð gott hjá okkur, þrátt fyrir að við byrjuðum seint og vorum í lítilli markaðssetningu. Fyrsta árið er alltaf pínu strembið en ég ætla ekki að kvarta yfir neinu nema kannski veðrinu, en það kom ekki almennilegt sumar fyrr en í lok júní.“ 
Hún segir sumarið vel hafa staðist væntingar. „Við vissum svo sem ekkert hvað við vorum að fara út í en ákváðum bara að prófa og skella okkur út í þetta. Þessi hjól og að deila skemmtuninni að vera á þeim með öðrum var hugmynd sem að Hreiðar kom með. Hann var búinn að vera með þetta í maganum í svolítinn tíma. Svo kom upp sú hugmynd að setja sæti á hjólin svo að breiðari aldurshópar gætu notið þess með okkur.“ 

Ingibjörg segir að þeim hafi verið vel tekið. „Kúnnarnir hafa allir verið rosa ánægðir, okkar helsti kúnnahópur hafa verð Ameríkanar, eða um 85%. Það sem hefur komið okkur mest á óvart er hvað Ameríkaninn er ævintýrasamur og elskar að koma með okkur og að það hafa bara komið tveir íslenskir hópar með okkur í sumar. Okkur hefur verið tekið mjög vel af öllum, margir bæjarbúar að fylgjast með gangi mála og finnst þetta spennandi, en Íslendingarnir hafa verið eitthvað „hræddir“ við að koma með okkur eða fatta bara ekki hvað þetta er gaman. Það er engan veginn hægt að líkja þessu við Hopp hjólin eins og margir halda að þetta sé. En við eigum eftir að fá Íslendingana til okkar líka, þeir eiga bara eftir að uppgötva okkur,“ sagði Ingibjörg og hlær. 

Hvernig fær maður til sín viðskiptavini sem nýr aðili í allri þessari flóru afþreyingar sem er í boði. „Við erum að fá bæði kúnnana með „walk in“, frá bæklingum og netsölu. Við erum inn á þessum helstu ferðasíðum þannig ef þú googlar Vestmannaeyjar þá komum við upp. Bæklingarnir sem að við gerðum hafa líka verið að koma sterkir inn. Við höfum verið að dreifa þeim um Suðurlandið og þeir klárast yfirleitt fljótt. En planið er að leggjast í stærri markaðssetningu fyrir næsta sumar.“ 

Hún segir þau ekki vera alveg lögst í verrardvala. „Veturinn fer svolítið eftir veðri og bókunum. Það er lítið hægt að vera að ferðast með túrista þegar að það er komin hálka og snjór en við erum alveg opin fyrir öllu og það er opið fyrir netbókanir hjá okkur. Það hefur róast helling eftir að lundinn fór, hefur hann verið helsta aðdráttaraflið í ferðum okkar. Hvað varðar næsta sumar þá erum við að vinna í skipulagi og markaðssetningu, erum búin að bæta við okkur hjólum og vonandi leikur veðrið við okkur,“ sagði Ingibjörg að lokum. 

Hjálpumst að við að auglýsa paradísareyjuna okkar

Nýir eigendur tóku við rekstri Hótel Vestmannaeyja fyrir tæpu ári síðan en þá höfðu þau Magnús Bragason og Adda Jóhanna Sigurðardóttir rekið hótelið í ellefu ár. María Ýr Kristjánsdóttir tók þá við sem hótelstjóri en hún hafði þá starfað við hótelið um nokkurt skeið. „Sumarið var flott hjá okkur eins og undanfarin ár. Meirihluti hótelgesta okkar koma frá Bandaríkjunum og Íslandi.“ María segist merkja þá einu breytingu frá því fyrir heimsfaraldurinn að hærra hlutfall gesta komi frá Bandaríkjunum en áður. „Það hefur lítillega dregið úr gestum frá evrópulöndunum.“ 

Hún segir framhaldið bjart og tækifærin fyrir hendi. „Næsta sumar lítur vel  út líkt og síðustu sumur, en Vestmannaeyjar eru samt sem áður alls ekki uppseldar í gistingu á sumrin. Við getum enn þá tekið á móti fleiri gestum yfir nótt. Þurfum að halda áfram, og gefa í við það að upplýsa ferðamanninn um að það er nóg að skoða og upplifa á eyjunni okkar fögru og mikil gæði í veitingarstöðunum okkar.  Engan veginn hægt að komast yfir allt á nokkrum klukkutímum.“ 

„Veturinn hefur hins vegar verið og er krefjandi verkefni í ferðaþjónustunni og að mínu mati stórt samvinnuverkefni okkar allra.“ María segir það skipta máli að búa til viðburði og þannig ná í ferðamanninn, ráðstefnurnar, námskeiðin,  fundina og margt fleira. „Það er allra hagur að ferðaþjónustunni ásamt öllu viðskiptalífinu gangi vel og eykur það lífsgæði okkar í Vestmannaeyjum. Hjálpumst að við að auglýsa paradísareyjuna okkar allan ársins hring. Við erum fyrir mörgum ennþá falið leyndarmál,“ sagði María að lokum. 

 

Verslunin gekk vonum framar

Alfreð Alfreðsson hefur starfað lengi í ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum en þó hafa orðið nokkrar breytingar á hans högum síðustu ár. „Ég stofnaði mitt fyrirtæki árið 2021. Er auðvitað gamall í hettunni og hef starfað við ferðaþjónustu frá 2005 og gert það eingöngu frá 2012.“ Alfreð selur rútuferðir um Heimaey fyrir gesti og gangandi. 

Alfreð segir sumarið hafa verið gott. „Ég er að mestu með hópa sem bóka fyrirfram og það hefur verið ágætt að gera. Nánast allir lausa farþegar og þeir sem koma inn af götunni voru erlendir en einungis nokkrir Íslendingar. Aftur á móti hef ég tekið á móti nokkrum íslenskum hópum. Hvað væntingar varðar þá gekk flest eftir en þó var stefna mín sú að selja ferðir frá Reykjavík en þegar til kastanna kom reyndist erfitt að fá smárútu í verkið. Þær lágu hreinlega ekki á lausu fyrir sumarið. Reyndar var ég búinn að handsala kaup á einni slíkri með fyrirvara um að seljandinn væri búinn að fá þær rútur sem hann sjálfur hafði samið um kaup á hjá umboði, en þau skil drógust þannig að ekkert varð úr, því miður. Varðandi komandi vetur og næsta sumar lítur það mjög vel út. Ég flyt mig upp á land og starfa þaðan fram á vor en næsta sumar er vel bókað hjá mér hér í Eyjum, segir Alfreð.“ 

Alfreð bauð ekki bara upp á rútuferðir í sumar hann hóf einnig rekstur á minjagripaverslun í húsnæði sem áður hýsti N1. „Verslunin gekk vonum framar og ég stefni á að starfrækja hana áfram næsta sumar. Því miður búum við ófremdarástand í samgöngumálum og ferðamenn treysta ekki á ferðir hingað. Því er nokkurn veginn sjálfhætt starfsemi eins og minjagripaverslun yfir vetrartímann. Þó má bæta því við að eftir þetta sumar erum við reynslunni ríkari. Við sjáum eftir hverju kúnninn er að leita, hvað selst og hvað vantar,“ sagði Alfreð kátur að endingu. 

Greinina má einnig lesa í 19 tbl. Eyjafrétta.