Bæjarráð tók á fundi sínum í vikunni sem leið fyrir bréf frá eftirlitsnefnd sveitarfélaga frá 13. október sl. Bréfið er ábending um neikvæða niðurstöðu A- hluta sveitarfélagsins í ársreikningi 2022. Í framhaldi áttu bæjarstjóri og fjármálastjóri fund með starfsmanni nefndarinnar og óskuðu eftir skýringum enda stenst Vestmannaeyjabær allar lögbundnar kröfur um fjármál sveitarfélaga.

Sætir undrun
Í niðurstöðu bæjarráðs um málið segir: “Þar sem Vestmannaeyjabær stenst allar lögbundnar kröfur um fjármál sveitarfélaga telur bæjarráð það sæta undrun að eftirlitsnefndin hafi sent þetta bréf án þess að kynna sér stöðuna, eins og raunar er staðfest í svarbréfi nefndarinnar. Einnig kemur fram í svarpósti nefndarinnar að ekki eru almennar áhyggjur af fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og ekki verður um að ræða neina eftirfylgni í framhaldi af bréfinu af hálfu nefndarinnar. Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar var með jákvæðri niðurstöðu árið 2022 og sömuleiðis skal bent á að A- hluti Vestmannaeyjabæjar verður skuldlaus við fjármálastofnanir á þessu ári. Ástæður neikvæðrar afkomu A- hluta á síðasta ári eru ekki rekstrarlegs eðlis heldur er um að ræða neikvæða ávöxtun á peningalegum eignum sveitarfélagsins.”

Eyþór Harðarson fulltrúi D-lista bókaði um málið eftirfarandi. “Undirritaður vill undir þessum lið ítreka fyrri bókanir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í umræðum um ársreikning Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2022 frá fundi 1593 og 1594 í Bæjarstjórn Vestmannaeyja.”

Vestmannaeyjabær.pdf
Tölvupóstur.pdf
Svarpóstur frá ráðuneyti.pdf