Umræða um samgöngumál var meðal efnis á fundi bæjarráðs í gær. Fram kom að Innviðaráðuneytið hefur unnið að því síðustu daga að finna lausn á þeim vanda sem bilun í Herjólfi hefur á samgöngur til og frá Vestmannaeyjum. Hluti af þeirri lausn er að koma á flugi frá 30. nóvember-6. desember. Ráðuneytið hefur falið Vegagerðinni verðkönnun sem miðar að því að hefja áætlunarflug til Eyja 15. desember og að flogið verði 4-5 sinnum í viku fram í febrúar hið minnsta með möguleika á framlengingu fram í apríl. Bæjarráð hefur lagt áherslu á að flogið verði tvisvar á dag svo flugið nýtist sem best. Samtímis er unnið að undirbúningi útboðs á ríkisstyrktu áætlunarflugi tll Eyja sem tæki gildi haustið 2024.