„Háskóladagurinn er leikvöllur tækifæranna“ segir Erla Hjördís Gunnarsdóttir verkefnastjóri dagsins.

  • Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík þann 2. mars nk.
  • Háskóladagurinn verður haldinn á fjórum stöðum á landinu
  • Háskóladagurinn er samstarfsverkefni allra háskóla landsins þar sem allt háskólanám landsins er kynnt
  • Háskóladagurinn hefur verið haldinn í tæp 40 ár


Erla Hjördís Gunnarsdóttir.

Hinn árvissi Háskóladagur verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars næstkomandi en þá gefst fólki kjörið færi á að kynna sér allt það fjölbreytta nám sem er í boði í háskólum landsins. Dagurinn er sameiginlegur vettvangur allra háskólanna þar sem nemendur, kennarar, vísindafólk og námsráðgjafar bera hitann og þungann af kynningum á náminu. Þessi mikilvægi og skemmtilegi samstarfsviðburður háskólanna hefur verið haldinn í tæp 40 ár og nýst ótrúlegum fjölda við að velja sér nám við hæfi.

„Það má líkja Háskóladeginum við leikvöll tækifæranna þar sem öll ættu að geta fundið nám við sitt hæfi. Námsframboð háskólanna sjö er enda gríðarlega fjölbreytt og spennandi. Það getur því verið vandi að velja en starfsfólk skólanna og nemendur verða á staðnum ásamt námsráðgjöfum til að styðja við námsvalið,“ segir Erla Hjördís Gunnarsdóttir, sem er nýr verkefnaastjóri Háskóladagsins.

Erla Hjördís hefur hefur víðtæka reynslu af verkefna-, og viðburðarstjórnun og er spennt fyrir Háskóladeginum sem hefur verið í stífum undirbúningi undanfarnar vikur í samvinnu háskólanna sjö.

„Það er virkilega skemmtilegt og mikill heiður að fá að koma að þessu verkefni. Það hefur opnað augu mín fyrir þeirri miklu dínamík og þeim krafti sem er í háskólastarfinu á Íslandi. Ljóst er að gott samstarf milli háskólanna mun leiða af sér flottan viðburð sem hefur svo sannarlega fest sig í sessi. Enda hefur hann skilað nemendum miklu í gegnum tíðina og þjóðinni líka því það er auðvitað brýnt að fólk finni og velji nám við hæfi.“

Háskóladagurinn verður að þessu sinni á þremur stöðum auk Reykjavíkur, á Egilsstöðum fimmtudaginn 7. mars, á Akureyri föstudaginn 8. mars og á Ísafirði, miðvikudaginn 13. mars.

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson ásamt Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra munu formlega hefja daginn í Reykjavík, nánar tiltekið í Listaháskóla Íslands í Laugarnesi klukkan 12, laugardaginn 2. mars.

Háskólar landsins hvetja öll sem vilja kynna sér námsframboð skólanna til að mæta og er aðgangur að sjálfsögðu ókeypis. Í Reykjavík fara námskynningar fram í Háskóla Íslands (Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, HÍ, Landbúnaðarháskólinn og Listaháskóli Íslands), í Háskólanum í Reykjavík (Háskólinn á Bifröst, HR og Listaháskóli Íslands) og í Listaháskóla Íslands (LHÍ) í Laugarnesi.

Samstarfsaðilar dagsins eru Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Háskóli Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands, Listaháskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík.

Nánari upplýsingar eru á heimasíðu dagsins, www.haskoladagurinn.is