Birgir Þórarinsson, þingmaður.

Óbyggðanefnd tók til starfa árið 1998. Nefndinni var ætlað að kanna og skera úr um hvaða landsvæði teljast til þjóðlendna. Hver væru mörk þjóðlendna og eignalanda bænda. Bændum var talin trú um að þetta væri þeim til hagsbóta. Bændur hafa verið hlynntir því að skýra óvissu. Það stóð til að þetta tæki bara fáein ár að fara í þessi mál en þau eru nú orðin 26 árin og hafa valdið mörgum fjölskyldum hugarangri. Á fjárlögum þess árs fær nefndin 120 milljónir. Þegar loksins hyllti undir það að nefndin yrði lögð niður, var ákveðið að færa henni auknar lagaheimildir svo hún gæti snúið sér að sjávarjörðum og eyjum utan meginlandsins. Eitthvað sem menn áttu alls ekki von á og var aldrei tilgangur þessarar vegferðar í upphafi.
Röng skilaboð í samfélag sem hefur mátt þola margvíslegt mótlæti
Því miður er það svo að Óbyggðanefnd hefur nú ákveðið að ásælast allar Vestmannaeyjar og Heimaey að hluta. Fyrir mér er það nú alveg nýtt að Eyjar séu óbyggðir. Það verður seint sagt að embættismönnum skorti hugmyndaflugið. Aldrei hefur verið ágreiningur eða vafamál um eignarhald á landi í Vestmannaeyjum. Óbyggðanefnd mun fara erindisleysu til Eyja. Erindisleysu sem kostar skattgreiðendur peninga og sendir röng skilaboð í samfélag sem hefur mátt þola margvíslegt mótlæti. Á Alþingi skoraði ég á fjármálaráðherra að stöðva þennan ófrið, sem embættismenn Óbyggðanefndar hafa efnt til við Eyjamenn.

Höfundur er alþingsmaður Suðurkjördæmis.