Þjóðlendukröfur íslenska ríkisins voru til umræðu á fundi bæjarráðs en Fjármála- og efnahagsráðherra, f.h. íslenska ríkisins, lýsti þann 2. febrúar sl. kröfum um lönd í Vestmannaeyjum sem óbyggðanefnd hefur skorið úr um að séu þjóðlendur sbr. lög nr. 58/1998. Samkvæmt kröfulýsingu er um að ræða hluti lands á Heimaey, úteyjar og sker. Óbyggðanefnd kallaði eftir kröfum frá ríkinu og koma þær fram í kröfulýsingu ríkisins, nefndin kallar nú eftir kröfum frá þeim sem hafa öndverða hagsmuni við ríkið og skal skila skriflegum kröfum til nefndarinnar fyrir 15. maí nk.

Í formála kröfulýsingarinnar kemur fram að ekki hafi verið unnt að beita hefðbundnum aðferðum við framsetningu kröfulýsingarinnar vegna sérstöðu svæðisins gagnvart öðrum kröfusvæðum sem óbyggðanefnd hefur þegar fjallað um.

Bæjarstjórn hefur sent fjármála- og efnahagsráðherra opið bréf og mótmælt kröfulýsingunni.

Bæjarráð skorar á fjármála- og efnahagsráðherra í niðurlagi um málið að draga til baka þessa kröfulýsingu sem ráðherra, fyrir hönd ríkisins, gerði í Vestmannaeyjar. Það er með öllu ótækt að ríkið taki ákvörðun um að þinglýstur kaupsamningur, sem byggði á grundvelli sérstakrar lagasetningar þar um, frá árinu 1960 sé ekki virtur. Samkvæmt þeim kaupsamningi keypti Vestmannaeyjakaupstaður allt land í Vestmannaeyjum af ríkissjóði Íslands.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að óska eftir fundi með ráðherra.

KRÖFULÝSING_svæði 12_A _SUÐURLAND_31.pdf

Opið bréf til fjármála.pdf