Sumarið 2016 stefndi Umhverfisstofnun á að friðlýsa búsvæði sjófugla sem friðland í Vestmannaeyjum, í samræmi við 2. og 49.gr. lagna nr. 60/2013 um nátturuvernd.

Friðlýsingin sem fól m.a. í sér að margvíslegt vald yrði  fært frá bæjaryfirvöldum til Umhverfisstofnunar, s.s. umsjón með búsvæðavernd fugla, landnotkun og mannvirkjagerð á hinu friðlýsta svæði sem eru allar úteyjarnar auk flestra búsvæða fugla á Heimaey.

Þessar hugmyndir Umhverfisstofnunar fóru ekki vel í Eyjamenn og þá sérstaklega bjargveiðimenn sem hafa nýtt úteyjar og heimalandið í gegnum aldirnar. Eftir þó nokkrar umræður í bæjarstjórn var hugmyndin um friðlýsingu felld, enda litið á Vestmannaeyjabæ sem landeiganda í Vestmannaeyjum. Komist var að þeirri niðurstöðu að veiðifélögin í úteyjunum og á heimalandinu væru ekki síðri landverðir og friðunarsinnar en starfsmenn Umhverfisstofnunar á Reykjavíkursvæðinu. Ég þekki það af eigin raun að veiðifélögin verja sín svæði af fullri hörku og myndu aldrei fórna náttúrugæðum eyjanna.

Vestmannaeyjar keyptar af ríkissjóði  undir forystu Guðlaugs Gíslasonar  

 Þegar friðlýsing Umhverfisstofnunar var til umræðu skrifaði ég grein á Eyjamiðlum sem innihélt eftirfarandi texta:  “Árið 1960 skrifuðu Guðlaugur Gíslason, þáverandi bæjarstjóri  í Vestmannaeyjum  og Ingólfur Jónsson, landbúnaðarráðherra, og Bjarni Benediktsson, dómsmálaráðherra undir samning þar sem Vestmannaeyjakaupstaður keypti úteyjarnar af íslenska ríkinu. Taldi Guðlaugur að um mikið framfaramál væri að ræða fyrir Eyjarnar og að þetta hefði verið eitt af merkustu málum í sinni bæjarstjóratíð”.

Þessi samningur um kaup Vestmannaeyjakaupstaðar á Vestmannaeyjum af íslenska ríkinu gerði það að verkum að Eyjahjartað sló enn fastar og herti menn í baráttunni gegn því að bæjaryfirvöld sem landeigendur myndu afsala sér yfirráðum í Vestmannaeyjum – og það tókst!

Kröfulýsing um þjóðlendumörk – Eyjar og sker

Nú á fyrstu dögum febrúarmánaðar birtist á vef Óbyggðarnefndar kröfulýsing íslenska ríkisins í stóran hluta Vestmannaeyja og rifjaðist þá upp baráttan gegn friðlýsingunni á sínum tíma. Í formála kröfulýsingarinnar kemur fram að ekki hafi verið unnt að beita hefðbundnum aðferðum við framsetningu kröfulýsingarinnar vegna sérstöðu svæðisins gagnvart öðrum kröfusvæðum sem Óbyggðanefnd hefur þegar fjallað um, enda eru Vestmannaeyjar ekki óbyggðir eða hálendi. Í raun er verið að segja að lögin um þjóðlendurnar voru ekki skrifuð með eyjaklasa eins og Vestmannaeyjar í huga.

Þjóðlendur – landsvæði utan eignarlanda  

Þjóðlenda er skilgreind í þjóðlendulögum sem „landsvæði utan eignarlanda “, sem á sannarlega ekki við um Vestmannaeyjar. Það er harla ólíklegt að Óbyggðanefnd komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkinu hafi verið óheimilt á Alþingi að samþykkja  lög sem heimiluðu sölu á  Heimaey  ásamt öllum  úteyjum, dröngum skerjum til Vestmannaeyjakaupstaðar með þinglýsti  afsali 1960.  Þar segir í 1.gr. “Ríkisstjórninni er heimilt að selja Vestmannaeyjakaupstað land allt í Vestmannaeyjum sem nú er í eigu ríkisins”.

Kjörnir fulltúar í bæjarstjórn og  Alþingi.

Þegar unnið var að frágangi afsals sumarið 1960, þá þótti bæjarstjórn ástæða til að þakka þingmönnum Suðurlandskjördæmis forgöngu í málinu, og Alþingi og ríkisstjórn skilning á þeirri nauðsyn Vestmannaeyjabæjar að eignast allt land í Vestmannaeyjum.

Ég geri sem  bæjarfulltrúi og íbúi í Eyjum  þá eðlilegu  kröfu til þingmanna Suðurkjördæmis og til ráðherra í ríkisstjórninni að þeir sjái  til að stjórnvöld  afturkalli  nú þegar kröfulýsingu á Vestmannaeyjar með einum eða öðrum hætti. Gerist það ekki munu taka við áralangar deilur og  málarekstur fyrir dómstólum.

Það þarf að  beita skynsemi og um leið  réttsýni til að fylgja málum eftir. Með sömu rökum  þarf að stöðva þessa ótrúlegu kröfugerð ríkissjóðs á hendur  Vestmannaeyjabæ, þinglýsts eiganda  Heimaeyjar ásamt  úteyjum, dröngum og skerjum í Vestmannaeyjum.

Eyþór Harðarson, bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum.