Bandarísku knattspyrnukonurnar Lexie Knox og Natalie Viggiano hafa skrifað undir samning við knattspyrnudeild ÍBV og mun því koma til með að spila með liðinu í Lengjudeild kvenna í sumar.

Lexie er 25 ára varnarmaður sem hefur leikið í Noregi, Albaníu og einnig í háskólaboltanum í Bandaríkjunum. Hún var lykilmaður í albanska liðinu Vllaznia sem tryggði sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar árið 2022 en í riðlinum lék liðið við Chelsea, PSG og Real Madrid. Á síðustu leiktíð lék hún með norska liðinu Klepp í 1. deild þar í landi.

Natalie sem er 23 ára, var valin í NWSL draftinu í fyrra nr. 46 í lið OL Reign, sem nú heitir Seattle Reign. Áður hefur hún leikið með háskólaliðinu í Wisconsin University.
Snemma var hún í úrtökum fyrir yngri landslið Bandaríkjanna og hefur hún einnig verið ofarlega í sóknartölfræði hjá háskólaliði sínu síðustu ár. Hún kemur til ÍBV frá Damaiense sem leikur í efstu deild Portúgal.

Knattspyrnuráð býður Lexie og Natalie velkomnar og hlakkar til samstarfsins.