Á síðustu árum og áratug hefur verið mikil þróun í þjálfun barna og unglinga, aðstaða til íþróttaiðkunar hefur verið að batna og þjálfunin er sífellt að verða markvissari. Samhliða þessari bættri aðstöðu og aðgengi að góðri þjálfun hefur krafan um betri árangur einnig aukist, jafnt frá foreldrum, þjálfurum og íþróttafélögum. Jafnvel er þess krafist af ungum íþróttaiðkendum að sérhæfa sig sem fyrst og velja sér eina íþróttagrein þar sem æfingar eru jafnvel stundaðar allt árið um kring. Margir hafa viljað gagnrýna þessa þróun en aðrir ekki, segir Erlingur Birgir Richardsson. En hann ásamt Bergvini Haraldssyni munu halda fyrirlestur um íþróttir barna og unglinga sem nefnist „Barnastjarna eða afreksmaður. Sérhæfing barna og unglinga í íþróttum“ í sal Barnaskóla Vestmannaeyja á morgunn þriðjudaginn 16. apríl kl. 17:30.

Aðspurður út í fyrirlesturinn segir Erlingur: „Já eins og mörgum er þjálfun barna og unglinga okkur báðum hugleikið“

“Í gegnum okkar nám sem íþróttafræðingar höfum við báðir reynt að rýna og skoða hverskonar umhverfi sé líklegast til að skila börnum og unglingum sem lengst í íþróttum, þ.e. hvernig búum við til afreksmann?  Síðastliðið vor útskrifaðist Bergvin sem íþróttafræðingur frá HR og skilaði hann inn virkilega áhugaverðri lokaritgerð og bæklingi sem fjallaði um Snemmbæra þjálfun barna og unglinga. Okkur langar því að bjóða fólki að sjá og hlusta á samantektir okkar á þessu viðfangsefni. Í þessari samantekt okkar er bent á niðurstöður fjölþjóða rannsókna sem allar miða að því að finna út hvað mótar afreksmanninn, hvað er það sem afreksmenn eiga sameiginlegt frá fyrstu skrefum sínum í íþróttum til fullorðinsáranna? Hvað segja fræðimenn á þessu sviði, hvenær eiga börn að byrja að stunda hinar ýmsu íþróttagreinar, hvað skal leggja áherslu á í barna og unglingaþjálfun og á hverju byggja þeir sinn rökstuðning?

Við munum fyrst og fremst fjalla um hvort það sé munur á því ef börn ákveða snemma á lífsleiðinni að velja sér að æfa eina íþróttagrein, þ.e sérhæfa sig snemma, samanborið við þau sem stunduðu fleiri en eina íþróttagrein, þ.e stunda fjölþætta grunnþjálfun, á uppvaxtarárum. Hvort er betra til skemmri og lengri tíma, hefur það áhrif á brottfall o.sfrv. Einnig munum við fjalla um hvað fræðimenn telja æskilegt æfingamagn fyrir börn og unglinga m.t.t álagsmeiðsla, hvaða stefnur og leiðir hafa mismunandi þjóðir og íþróttasambönd lagt til að sé rétta leiðin til að móta eða þjálfa upp afreksmann o.sfrv.

Vonandi fáum við sem flesta til að koma við í Barnaskólanum n.k þriðjudag kl. 17:30. Léttar veitingar verða í boði ef fólk er að koma svangt beint eftir vinnu 🙂 “

Link á viðburðinn má nálgast hér.