Karlakór Vestmannaeyja heldur árlega vortónleika sína á uppstigningardag þann 9. maí næstkomandi. Tónleikarnir eru haldnir undir yfirskriftinni „Manstu gamla daga?“. Matthías Harðarson hefur verið stjórnandi kórsins í hálft annað ár. Hann segir tónleikanna vera ákveðið afturhvarf til einfaldleika. „Kórinn hefur síðustu tvö ár haldið vortónleika með hljómsveit og talsverðu umstangi auk þess sem töluvert hefur verið um stórar framkomur hjá okkur upp á síðkastið bæði í Hörpu, Lúðrasveitatónleikum og á stóra sviðinu í Herjólfsdal. Nú er planið að leita aftur í einfaldara form og halda alvöru karlakórstónleika þar sem eldra og kunnuglegra efni verður í forgangi. Það er margt skemmtilegt á efnisskránni, mest íslenskt en einnig má þar finna erlenda slagara.“ Matthías segir hópinn vera þéttan og vel undirbúinn. „Við vorum að koma úr góðri æfingarferð þar sem æft var frá morgni til kvölds og efnið er farið að hljóma vel.“

Virkir kórmeðlimir í dag eru um 20 talsins. Matthías segir að vissulega sé pláss fyrir fleiri. „Þetta er þéttur og góður hópur sem mætir nokkuð vel. Þessir strákar eru margir búnir að vera í þessu frá því að kórinn var endurvakinn og því er komin ágæt reynsla í hópinn. Ef það eru einhverjir þarna úti sem langar að vera með þá er um að gera að fylgjast með okkur í haust þegar við förum aftur af stað eftir sumarfrí.“

Matthías vildi að lokum hvetja Eyjamenn til þess að mæta á tónleikanna í Akóges sem hefjast klukkan 20:00 þann 9. maí. Sérstakir gestir á tónleikunum er Karlakórinn Ernir frá Ísafirði það má því búast við skemmtilegu kvöldi. „Þetta er ákveðin uppskeruhátíð fyrir okkur og mikilvæg fjáröflun þannig að það væri gaman að sjá sem flesta. Forsala fer fram í Kránni, það er aldrei að vita nema Kári Fúsa taki lagið fyrir ykkur við grillið þegar þið sækið miða til hans,“ sagði Matthías kátur að endingu.