Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE lönduðu á Djúpavogi á sunnudaginn. Skipin voru kölluð inn til löndunar vegna þess að það vantaði fisk til vinnslu í vinnslustöðvar Vísis í Grindavík. Vestmannaey var með um 60 tonn og Bergey með 44 tonn en aflinn fékkst á Breiðamerkurdúpi, Lónsbugtinni og í Sláturhúsinu. Drjúgur hluti aflans var ufsi.
Að undanförnu hafa skipin landað víða. Bergey hefur landað í Vestmannaeyjum, Þorlákshöfn, Neskaupstað og á Djúpavogi en Vestmannaey hefur landað á hvorki fleiri né færri en sjö stöðum að loknum síðustu átta túrum. Löndunarstaðirnir eru Vestmannaeyjar, Neskaupstaður, Grundarfjörður, Hafnarfjörður, Grindavík og nú Djúpavogur. Arnar Richardsson, rekstrarstjóri Bergs – Hugins, segir – í samtali við vefsíðu Síldarvinnslunnar – að óvenju víða hafi verið landað en hafa beri í huga að sótt hafi verið á hin ýmsu mið víða við landið. „Ég held ég geti fullyrt að skipin hafi aldrei landað í jafn mörgum höfnum á svo stuttum tíma. Ráðgert er að skipin landi á ný næstkomandi fimmtudag og þá er stefnt að löndun í Neskaupstað,” sagði Arnar.
Arnar sagði jafnframt að aflinn hjá togurunum tveimur í haust eða síðustu tvo mánuði hefði verið um 250 tonnum minni en á sama tíma í fyrra. Þorskaflinn hefði minnkað um rúmlega 400 tonn en hins vegar hefði meira verið veitt af karfa og ufsa. Þá benti hann á að veðurfar hefði ávallt áhrif á veiðarnar og hvar væri veitt.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst