
Í kvöld kl. 20 verður haldinn kynningarfundur um væntanleg jarðgöng milli lands og Eyja.
Ég hef átt því láni að fagna að geta fylgst með kraftaverka-mönnunum og frumkvöðlunum sem að verkefninu Eyjagöng standa úr stúkusæti, einstaklingar sem hafa lagt á sig ómælda sjálfboðavinnu í þágu samfélagsins okkar og velferð þess. Fundarhöld með stjórnendum stórra fyrirtækja, sveitastjórnum, verktökum og verkfræðistofum svo eitthvað sé nefnt.
Skoðanir á verkefni sem þessu eru auðvitað skiptar og má þar nefna þá umræðu sem varð í þjóðfélaginu í aðdraganda Hvalfjarðarganga, en í dag er þjóðin sátt með þá miklu samgöngubót sem göngin urðu.
Göng til Vestmannaeyja eru ekki bara samgöngubót fyrir samfélagið í Eyjum, það býður fyrirtækjum okkar upp á ný tækifæri sem áður hafa ekki gefist. Göngin gefa fólki og fyrirtækjum á Suðurlandi líka ótal tækifæri. Aðgang að höfn fyrir fyrirtæki sem á slíku þurfa að halda, nálægð við skóla og sjúkrahús svo eitthvað sé nefnt. Ferðaþjónusta, veitingastaðir og hótel munu blómstra og verða í alfaraleið en eyjan ekki bara sýnileg eins og fjöll í fjarska.
Ég skrifa þessi orð til að skora á Eyjamenn að fjölmenna á fundinn í kvöld, þó ekki sé til annars en að sýna kraftaverka-mönnunum þakklæti með nærveru sinni. Fjölmennur fundur vekur athygli eins og þetta verkefni á skilið.
Sjáumst í Höllinni í kvöld.
Alfreð Alfreðsson



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst