Spretthópur um Kveikjum neistann skilaði tillögum sínum til mennta- og barnamálaráðuneytisins. Spretthópnum var ætlað að meta stöðu þróunar- og rannsóknarverkefnisins Kveikjum neistann, árangur þess og tækifæri og koma með tillögur að möguleikum í þróun verkefnisins í þágu barna hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Þar segir jafnframt að í mati spretthópsins komi fram að ánægja sé með þróunarverkefnið meðal þátttökuskóla sem vilja halda áfram með verkefnið og meðal foreldra. Í úttekt spretthópsins kemur fram að 100% foreldra sem svöruðu foreldrakönnun um verkefnið, segjast ánægð með Kveikjum neistann verkefnið og að 66% foreldra sem svöruðu og eiga einnig börn sem hafa ekki tekið þátt í Kveikjum neistann verkefninu sögðust finna mun.
Læsismælingar á vegum verkefnisins sýna betri frammistöðu nemenda í verkefninu borið saman við aðra skóla. Samkvæmt úttekt skólastjórnenda í Vestmannaeyjum á niðurstöðum nemenda í fjórða bekk hafi samanburður á LÆS 2 leitt í ljós að 83% voru læs á móti 52% í samanburðarhópi 20 skóla á Íslandi. Sé litið til samanburðar á LÆS 3 voru 91% læs á móti 65% í samanburðarhópi 15 skóla á Íslandi. Hins vegar er bent á að komið hafi fram gagnrýni að framangreind matstæki hafi ekki fengið óháða ritrýni og fullnægjandi réttmætisathuganir.
Spretthópurinn fór einnig yfir niðurstöður Íslensku Æskulýðsrannsóknarinnar hjá fjórða bekk í Vestmannaeyjum sem sýndu að mun fleiri nemendur segjast hafa gaman af því að lesa í sínum frítíma og hafa gaman í skólanum árið 2025 en árið 2023. Fjöldi nemenda sem svara því að þau hafa gaman að lesa í frítíma í fjórða bekk jókst frá 64% árið 2023 í 77% árið 2025. Meira en helmingi færri segjast oft þreytt í skólanum og mun hærra hlutfall nemenda telja mikilvægt að leggja sig fram í námi.
Miðstöð menntunar og skólaþjónustu fékk nemendur úr 26 skólum á Íslandi til að staðla og prufukeyra Matsferil vorið 2025. Niðurstöður 4. bekkjar Grunnskóla Vestmannaeyja 2025 voru hins vegar í kringum meðaltöl áranna 2007–2024 í lesskilningi og stærðfræði. Enginn marktækur munur kom þarna fram í samanburði við landsmeðaltöl.
Spretthópurinn bendir á að skortur sé á gögnum til að leggja faglegt og vísindalegt mat á rannsóknarverkefnið sem sýnir fram á orsakasamhengi hvað árangur varðar. Fjögur ár eru liðin af rannsóknartímanum sem er tíu ár. Það er mat spretthópsins að áfram þurfi markvisst að styrkja rannsóknarhluta þess, efla samanburðarrannsóknir og tryggja að til staðar séu þau gögn og matstæki sem færi skýra og óháða sýn á árangur verkefnisins og orsakasamhengi árangurs. Lagt er til að áhugasamir skólar geti tekið þátt í þróun verkefnisins og mati á árangri þess með stuðningi óháðra aðila á meðan verið er að búa til og styrkja rammann utan um verkefnið. Þá er lagt til að Kveikjum neistann hópurinn fái aukinn stuðning, m.a. frá rannsóknaraðilum og óháðum aðilum, sem gæti m.a. falist í aðgangi að viðurkenndum mælitækjum, meiri samanburði við sambærilega hópa innanlands og próffræðilegri ráðgjöf frá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.
Einn fulltrúi í spretthópnum skilaði séráliti þar sem kemur m.a. fram að skilyrði til að hægt sé að fullyrða að verkefnið skili árangri umfram hefðbundið skólastarf séu ekki uppfyllt og að þörf sé á frekari rannsóknum. Sérálitið fylgir tillögunum í viðauka.
Kveikjum neistann er skólaþróunarverkefni með það markmið að efla skólastarf, bæta líðan og árangur barna í grunnskóla. Samhliða verkefninu er menntarannsókn sem hugsuð er til tíu ára þar sem árgangi er fylgt út grunnskólagönguna, frá 1. – 10. bekk og árangur metinn. Verkefnið hófst í Vestmannaeyjum árið 2021 og Lindaskóli í Kópavogi innleiddi það árið 2024 en það byggir m.a. á náinni samvinnu fræðimanna og fagfólks í þátttökuskólunum við þróun og innleiðingu.
Verkefnið snýst um að byggja upp skólastarf sem
Með verkefninu er lögð áhersla á að efla stuðningskerfi fyrir nemendur til að ná tökum á grunnfærni, skipulagi skóladagsins er breytt og markviss eftirfylgni er með hverjum nemanda. Notast er við viðurkenndar kennsluaðferðir innan ramma aðalnámskrár grunnskóla segir í úttekt spretthópsins.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst