Gullberg VE kom til Eyja um hádegisbil í dag (sunnudag) með tæplega 1.400 tonn af makríl, 570 gramma fiski, er segir á vefsíðu Vinnslustöðvarinnar. Áhöfnin fyllti skipið í lokin með makríl sem tekinn var frá Vinnslustöðvarskipunum Sighvati Bjarnasyni og Hugin á miðunum í Austurdjúpi.

Jón Atli Gunnarsson, skipstjóri á Gullbergi, er hinn lukkulegasti með gang mála á vertíðinni:

„Við vinnum saman á Vinnslustöðvarskipunum þegar það á við eins og í þessu tilviki þegar Gullberg náði 200 tonnum, Huginn öðrum 200 tonnum og Sighvatur 100 tonnum á sama tíma á sama blettinum. Samstarfshringurinn gaf þannig alls 500 tonn og við tókum þennan afla af Hugin og Sighvati um borð hjá okkur í restina á túrnum í blíðviðri og á spegilsléttum sjó. Hins vegar var biksvört þoka þegar við nálguðumst Hugin aðfaranótt laugardags en svo létti til.

Makríllinn sem veiðist í íslenskri lögsögu er stór og rosalega flottur fiskur, 500 grömm og þar yfir. Hann virðist ganga gegnum færeysku lögsöguna inn í þá íslensku, óvenju vestarlega samanborið við sumarið 2022. Þetta líkist meira því sem gerðist 2010-2017.

Við höfum heyrt að veiði hafi verið frekar dræm í Smugunni hjá rússneskum og grænlenskum skipum og að makríllinn sé mun smærri þar en sá sem við veiðum nú, 300 til 350 gramma fiskur. Kann samt að vera að ástandið hafi breyst til batnaðar í Smugunni hvað aflabrögð varðar og stærð fiskjarins enda nokkuð um liðið frá því fréttir bárust þaðan.

Makríllinn í íslensku lögsögunni er hins vegar 500 grömm og þar yfir. Það eru því gríðarleg verðmæti sem berast okkur og vertíðin nú er ekki sambærileg við það sem gerðist í fyrra þegar aðallega var veitt í Smugunni. Nú veiðist mest í íslenski lögsögu og þar hittum við fyrir eðalmakríl líkt og þann sem við komum með heim í dag.“

Jón Atli Gunnarsson tók eftirfarandi myndir aðfaranótt laugardags 22. júlí af Sighvati Bjarnasyni VE og Hugin VE á miðunum fyrir austan land þegar dælt var makríl frá skipunum um borð í Gullberg VE.

Huginn VE