Vinnslustöðvarskipin Breki VE-61 og Þórunn Sveinsdóttir VE-401 tóku bæði þátt í stofnmælingum Hafrannsóknarstofnunar á botnfiski hringinn í kringum landið núna í október, verkefni sem gjarnan er einfaldlega kallað „haustrall Hafró“.

Breki lagði upp í sinn leiðangur 28. september og kom til heimahafnar 20. október, Þórunn lagði af stað 2. október og kom heim 24. október.

Þetta er þriðja árið í röð sem Breki tekur þátt í  haustrallinu. Magnús Ríkarðsson skipstjóri og áhöfn hans teljast því til reynslubolta að þessu leyti. Óskar Þór Kristjánsson skipstjóri og áhöfn hans á Þórunni Sveinsdóttur eru hins vegar nýliðar í verkefninu.

Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri botnfiskssviðs Vinnslustöðvarinnar:

„Ríkiskaup óska eftir tilboðum í leigu á togurum í rallið og semja í framhaldinu við útgerðarfélög um afnot af skipunum. Vinnslustöðin hafði leigt Breka tvisvar sinnum í djúpsjávarþátt rallsins og bauð í ár í verkefnið í þriðja sinn og fékk. Við buðum að þessu sinni líka í grunnsjávarþáttinn fyrir Þórunn Sveinsdóttir og fengum.

Verkefnin henta skipunum vel og samstarfið við Hafrannsóknastofnun er sérlega gott. Þar starfar fjöldi fagfólks á sínum sviðum sem gefandi er fyrir okkur að kynnast og mikilvægum vísindastörfum þeirra. Hafrannsóknir skipta auðvitað þjóðina alla gríðarmiklu máli.“

Togað niður á 1.300 metra dýpi

Haustrallið hefur verið árlegur viðburður hjá Hafrannsóknastofnun frá árinu 1996. Markmiðið er að styrkja mat á stofnstærð helstu botnlægra nytjastofna með því að toga á sömu stöðum með sams konar veiðarfærum ár eftir ár á Íslandsmiðum, meta og mæla það sem upp kemur, skrá sjávarhita og margt fleira.

Skipting rannsóknarsvæðisins miðast við meginútbreiðslu þorsks, ýsu og gullkarfa á grunnslóð annars vegar og grálúðu og djúpkarfa á djúpslóð hins vegar. Djúpslóðin er á 400 til 1.500 metra dýpi.

Þórunn  Sveinsdóttir togaði á 179 stöðvum á grunnslóðinni en Breki á 155 stöðvum á djúpslóð. Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson tók sem fyrr þátt í rallinu og togaði á 38 stöðvum suðvestur og vestur af landinu.

Þórunn togaði á 25 til 422 metra dýpi (174 dýpi að meðaltali), Breki togaði á 150 til 983 metra dýpi (542 metra dýpi að meðaltali). Dýpsta stöðin í leiðangrinum var um 1.300 metrar og á slíku dýpi hafa ekki önnur skip í íslenska flotanum en Árni Friðriksson möguleika til að toga.

Plast og rusl vaktað líka

Klara Björg Jakobsdóttir fiskifræðingur er verkefnisstjóri haustrallsins og hún var jafnframt leiðangursstjóri á Árna Friðrikssyni. Valur Bogason sjávarvistfræðingur var leiðangursstjóri á Þórunni Sveinsdóttur og Hlynur Pétursson líffræðingur leiðangursstjóri á Breka.

Leiðangursmönnum er gert að fylgjast með fleiru en sjálfu lífríkinu því ætlast er til þess að þeir skrái líka plasthluti og annað rusl sem kann að koma upp í trollið, segir Klara Björg:

„Vöktun vegna plasthluta og rusls var sett á dagskrá rallsins á árinu 2017 að frumkvæði Karls Gunnarssonar líffræðings. Blessunarlega lítið kemur upp af rusli og aðskotahlutum, helst snærisbútar og brot úr veiðarfærum. Hins vegar getum við nú  vísað til þess að gögn séu til um þessa hlið umhverfisvöktunar við Ísland.

Haustrallið í ár tókst í heildina vel. Október er erfiður árstími og allra veðra von. Við fengum bæði gott og slæmt veður, það teldist fréttnæmt ef veðrið léki við okkur allan tímann!

Samstarfið við skipstjórana á leigutogurunum var farsælt og gott. Magnús á Breka er auðvitað reyndur og áhugasamur og ég heyri ekki betur en að Óskar Þór á Þórunni fái líka ágætiseinkunn hjá okkar fólki sem var þar um borð. Það skiptir svo miklu máli að vinna með skipstjórum sem leggja sig alla fram um að skila góðu verki. Áhöfnin öll smitast af áhuga yfirmanna sinna og árangurinn lætur ekki á sér standa þegar allir leggjast á eitt, áhafnir skipanna og starfsfólkið okkar.“

Gott samstarf við Hafrófólk

Skipstjórarnir Magnús og Óskar Þór eru hinir ánægðustu með rallið en þegar að þeim er þjarmað með spurningar um aflabrögð og annað eftir því gerast þeir óvenju hógværir og þögulir: „Við megum ekkert segja, þú verður að spyrja Hafrófólkið.“ Hið eina sem tekst að tosa upp úr Óskari Þór er að honum hafi komið á óvart hve útbreidd ýsan var á miðunum. Magnús missti út úr sér að heldur meira hafi verið af karfa á vestursvæðinu en í fyrra.

Svo brast á þögn um aflann hér og þar en Óskar bætti við:

„Gaman var að fást við þetta í fyrsta sinn, fá að fara hringinn í kringum landið og inn í firði og flóa, inn fyrir mörk landhelginnar og nánast upp í fjörugrjót sums staðar.

Við sigldum alls 3.800 sjómílur í rallinu og lönduðum fiski í alls 420 körum á Ísafirði, Dalvík og í Vestmannaeyjum.“

Magnús á Breka slær botn í spjallið:

„Rallið í ár var að miklu leyti endurtekið efni frá því í fyrra en veðurfarið erfiðara nú en þá. Við tókum veiðarfærin um borð í Vestmannaeyjum, hófum leiðangurinn strax og fórum vestur og norður um.

Við sigldum rétt um 3.000 sjómílur í leiðangrinum, toguðum niður á 500 faðma og lönduðum í Neskaupstað og Vestmannaeyjum.

Samstarfið við starfsfólk Hafrannsóknarstofnunar var afar gott og hefur verið í öllum verkefnum sem ég hef tekið þátt í.“

Titilmynd fréttarinnar tók Arnar Björnsson líffræðingur um borð í Árna Friðrikssyni. Dílamjóri hringar sig um rækjugrey. Dílamjóri er botnfiskur sem fannst fyrst austan við Ísland árið 1902 á hafsvæði sem síðar var nefnt Rauða torgið – samkvæmt því sem Gunnar Jónsson fiskifræðingur segir og hann veit hvað hann syngur.

Á Íslandskortinu sjást siglingaleiðir skipanna þriggja í haustrallinu. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson á bláu línurnar, Breki VE þær gulbrúnu og Þórunn Sveinsdóttir þær hvítu.

Þar fyrir neðan eru tvær myndir sem Kristín Jóhanna Valsdóttir, náttúrufræðingur á Hafrannsóknastofnun, tók í síðari hluta leiðangurs á Breka. Fyrirsæturnar við færibandið eru úr áhöfn togarans.

Þá kemur mynd sem Valur Bogason leiðangursstjóri tók um borð í Þórunni Sveinsdóttur á „bleika deginum“· Þar sést í hnakka Freys Arnaldssonar sjávarútvegsfræðings og gegnt honum er Bylgja Sif Jónsdóttir líffræðingur. Fjær grillir í hluta áhafna skipsins.

Næstneðst er mynd sem Óskar Pétur, ljósmyndari í Vestmannaeyjum, tók af nafna sínum, Óskari Þór Kristjánssyni skipstjóra, í brú Þórunnar Sveinsdóttur.

Neðsta myndin var tekin í brú Breka 1. júní 2018. Þá gaf Kristín Gísladóttir skipinu nafn við hátíðlega athöfn og Vestmannaeyjaprestarnir Guðmundur Örn Jónsson og Viðar Stefánsson blessuðu það. Magnús Ríkarðsson skipstjóri sýndi prestunum síðan tækjakostinn í brúnni og þeir fylgdust andaktugir með.  Engum blöðum er um það að fletta að mun einfaldara er að vakta guðsríki en lífríki sjávarins og kallar hvorki á tölvur, skjái né aðrar tæknigræjur.