Í ár fagnar Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum 40 ára afmæli. Í tilefni af því er boðið til samsætis í húsakynnum skólans í dag. Afmælishátíðin hefst kl. 14.00 með formlegri dagskrá og verður boðið upp á veitingar að henni lokinni.

Vestmannaeyjar væru fátækari ef ekki væri hér framhaldsskóli og möguleikar fyrir ungt fólk að ljúka því millistigi sem framhaldsskóli er á milli grunnskóla og háskóla og annars framhaldssnáms. Það verður því seint metið að hér er öflugur framhaldsskóli, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum (FÍV) sem líka er einn stærsti vinnustaður í bænum með alls um 40 starfsmenn og yfir 200 nemendur. Það verður því að standa vörð um skólann sem á sinn þátt í að gera Vestmannaeyjar að því öfluga samfélagi sem við þekkjum í dag.

Skólameistari í dag er Helga Kristín Kolbeins sem tók við af Ólafi H. Sigurjónssyni en fyrsti skólameistarinn var Gísli Friðgeirsson.

Thelma Gísladóttir, aðstoðarskólameistari og Helga Kristín Kolbeins skólameistari við útskrift frá FÍV.

Varð til við sameiningu
FÍV var stofnaður 1979 og fagnar því 40 ára afmæli í ár. Hann varð til við samruna Iðnskólans í Vestmannaeyjum, Vélskólans í Vestmannaeyjum og framhaldsdeilda Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum. Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum varð að sérstakri deild innan skólans haustið 1997.
FÍV er fjölbrautaskóli þar sem í boði er bæði bók- og verknám, langt nám og stutt. Jafnframt fjölbrautakerfinu var tekið upp áfangakerfi. Þá er námi í einstökum greinum skipt upp í námspakka, sem hver um sig er ætlaður til kennslu á einni önn.
Skólinn er í Gagnfræðaskólanum sem Þorsteinn Víglundsson, skólastjóri með meiru hafði forgöngu um að var byggt eftir miðja síðustu öld. Reisulegt hús sem tekið hefur breytingum og verið aðlagað nýju hlutverki.

Skólahúsnæðið er 3172 fermetrar og þar af eru 918 fermetrar kennslurými. Í skólanum eru sjö almennar kennslustofur, ein raungreinastofa, ein tölvustofa, tvær hópvinnustofur, þrjár verklegar stofur (málm- og vélstjórn, rafmagn og Fablab) og stofa fyrir starfbraut ásamt kennslueldhúsi. Í skólanum er hátíðarsalur sem einnig er nýttur sem nemendaaðstaða og fyrir jógakennslu. Bókasafn, aðstaða nemendafélags og skrifstofur starfsfólks.
Haustið 1995 fluttist verklega kennslan í nýtt húsnæði þegar verknámsálma var byggð var við gamla Gagnfræðaskólahúsið. Íþróttakennslan er eina kennslan sem ekki fer að öllu fram í húsnæði skólans.

Með nýju verknámsálmunni batnaði mjög öll aðstaða til kennslu í verklegum vélstjórnargreinum, sem og verklegri kennslu málmiðna.

Lesa má myndarlega umfjöllun um Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum í síðasta tölublaði Eyjafrétta